Atmonia fékk í gær Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023 en verðlaunin voru afhent á opnum fundi sem bar yfirskriftina Hugvit / Hringrás / Árangur og fjallaði um mikilvægi orku- og veitutengdrar nýsköpunar.

Nýsköpunarfélagið Atmonia var stofnað árið 2016 af Agli Skúlasyni, Helgu Dögg Flosadóttur og Arnari Sveinbjörnssyni með það að markmiði að þróa róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda.

Við mat dómnefndar var horft til ýmissa þátta eins og nýnæmis, samsetningu teymis, verðmætis fyrir Ísland, markaðstækifæra, verðmætis m.t.t. loftslagsmála og nýtingu orku, vatns og hliðarstrauma fyrir verkefnið.
Í tilkynningu segir að dómnefndin hafi verið einróma í mati sínu og telur að framgangur verkefnisins geti haft afar jákvæð og þýðingarmikil áhrif.


Má þar nefna nýtingu hreinnar innlendrar orku fyrir eldsneytis- og áburðarframleiðslu, minnkun kolefnislosunar, auknar útflutningstekjur og minni innflutning erlendra afurða. Verkefnið getur einnig nýst víða annars staðar og aukið hróður íslenskrar tækni erlendis.

Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarverðlaun Samorku eru afhent. Fyrri handhafar eru Laki Power (2021) og Alor (2022).
