Krauma náttúrulaugar ehf., sem rekur náttúruböð og veitingastað við Deildartunguhver í Borgarfirði, tapaði 67,9 milljónum króna eftir skatta á síðasta ári samanborið við 46,8 milljóna króna tap árið áður.

Tekjur Kraumu jukust um 17,8% milli ára og námu 310 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld námu 300 milljónum sem samsvarar 6% aukningu milli ára. Stærsti kostnaðarliðurinn var laun og launatengd gjöld sem námu 159 milljónum ársverk voru 17.

Félagið skilaði því rekstrarhagnaði að fjárhæð 9,6 milljónir sem hefur ekki verið meiri frá opnun Kraumu í árslok 2017. Hrein fjármagnsgjöld að fjárhæð 94,5 milljónum leiddu til taps eftir skatta.

Eignir Kraumu nátturulauga ehf. voru bókfærðar á 712 milljónir króna í árslok 2023. Þar af voru fasteignir og lóðir 604 milljónir. Eigið fé félagsins var neikvætt um 14 milljónir í lok síðasta árs og skuldir námu 726 milljónum.

Stærsti hluthafi Kraumu er Helga S Guðmundsdóttir með 40% óbeinan hlut í gegnum félagið Reykjadalur ehf.