Hið nýstofnaða flugfélag Niceair á Akureyri hefur kynnt tvær nýjar 3ja nátta borgarferðir í haust, annars vegar til Edinborgar og hins vegar til Berlínar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ferðirnar til Edinborgar verða farnar 20. október og 17. nóvember, en til Berlínar 10. nóvember og 1. desember.

Sjá einnig: Aukið fé í Niceair

Hlutafé Niceair var aukið í byrjun júlí. Nam aukningin um 156 milljónum króna að nafnvirði í byrjun júní, úr 237 milljónum í tæpar 400 milljónir króna.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, hafði boðað að aukið fé þyrfti inn í reksturinn til að byggja hann upp. Félagið fór í jómfrúarflug sitt frá Akureyrarflugvelli þann 2. júní, en það er í eigu fjölda aðila á Norðurlandi á borð við KEA, Höld, Kaldbak og Norlandair.