Bandaríska húsnæðislánafyrirtækið Better Mortgage og sérhæfða yfirtökufélagið (SPAC) Aurora, sem Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, leiðir, hafa komist að samkomulagi um að framlengja í annað sinn frest á fyrirhuguðum samruna til 8. mars 2023. Félögin tvö eru þó með til skoðunar að falla frá samrunanum og að Better verði áfram óskráð félag.

„Aurora trúir eindregið á Better og styður markaðsáætlun þess,“ segir í tilkynningu sem Aurora sendi frá sér í lok síðasta mánaðar. „Þrátt fyrir að Aurora og Better séu enn staðráðin í að ljúka samrunanum þá eiga [félögin] í viðræðum um aðrar fjármögnunarleiðir fyrir Better sem hefðu í för með sér að fallið yrði frá samrunasamningnum og tengdum viðskiptum og Better verði þá áfram óskráð fyrirtæki.“

Sökum tafanna mun Better greiða Aurora allt að 15 milljónir dala, eða um 2,1 milljarð króna, „vegna ákveðinna eðlilegra og skjalfestra útgjalda“, en verði af samrunanum fær Aurora aðeins þrjá fjórðu hluta fjárhæðarinnar. Aurora tekur fram að gangi samruninn ekki í gegn, Better verði áfram óskráð félag, og Aurora nái ekki að ljúka öðrum samruna fyrir 8. mars næstkomandi þá muni sérhæfða yfirtökufélagið leggja upp laupana.

Novator fær verulegan afslátt

Aurora og Better tilkynntu um fyrirhugaða samrunann í maí 2021 og var Better þá metið á 6,9 milljarða dala. Með samrunanum yrði Better skráð á markað en þessi leið til skráningar hefur verið vinsæl síðustu ár. Auk Aurora fjárfesti japanska fjárfestingarfélagið SoftBank í Better.

Í lok nóvember 2021, eftir að halla tók undan fæti hjá Better, var tilkynnt um að fjármögnun fyrirtækisins myndi taka verulegum breytingum. Softbank myndi lána Better 650 milljónir dala og Novator 100 milljónir dala strax til að styrkja lausafjárstöðu félagsins, sem svo yrði breytt í hlutafé ef af skráningu á markað yrði.

Í lok síðasta mánaðar komust Aurora, Novator og Better að samkomulagi um að ef ekki yrði af samrunanum fyrir gjalddaga brúarlánsins, sem var frestað til 8. mars næstkomandi, gæti Novator umbreytt láninu í hlutafé á mun hagstæðara verði en áður.

Af 100 milljóna dala höfuðstólnum myndi Novator geta umbreytt 75 milljónum dala í almennt hlutafé með 75% afslætti af genginu sem var upphaflega samið um. Eftirstandandi 25 milljónum dala yrði breytt í forgangshlutafé á verði sem endurspegli 6,9 milljarða dala verðmatið í upphaflega samningnum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.