Meirihlutinn í Reykjavík heldur velli samkvæmt nýrri könnun, sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Könnunin var gerð dagana 15. febrúar til 11. mars. Gengið verður til kosninga laugardaginn 26. maí og þá verður borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 23. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins fær meirihlutinn 13 borgarfulltrúa en minnihlutinn 10.

Eftir kosningarnar í maí 2014 mynduðu Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) og Píratar meirihluta. Flokkarnir fengu samtals 61,7% í kosningunum og 9 borgarfulltrúa af 15.

Í kosningunum 2014 hlaut Björt framtíð 15,6% atkvæða en fylgið hefur hrunið af flokknum síðustu mánuði og mælist flokkurinn nú með 0,8% fylgi. Mánudaginn, 12. mars, ákváðu forsvarsmenn Bjartrar framtíðar að bjóða ekki fram í Reykjavík í komandi kosningum. Þess ber að geta að könnunin var gerð áður en sú ákvörðunin lá fyrir. Hún stóð til 11. mars eins og áður sagði.

Samkvæmt könnuninni er meirihluti Samfylkingar, VG og Pírata með 53,2% atkvæða. Þessir þrír flokkar mældust með 52,3% í könnun Gallup, sem Viðskiptablaðið birti 8. febrúar síðastliðinn. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í júní síðasta sumar mældust flokkarnir þrír með 56,8%.

Heilt yfir eru niðurstöðurnar nú keimlíkar niðurstöðunum sem birtar voru 8. febrúar . Helstu tíðindin eru þau að Samfylkingin bæti ríflega 4% við sig. Flokkurinn mældist með 25,7% í byrjun febrúar en 29,9% nú. Flokkurinn er þó enn undir 31.9% kjörfylgi sínu.

VG á niðurleið

Sá flokkur sem tapar mestu á milli kannana er VG. Flokkurinn mælist nú með 10,3% samanborið við 13,3% í byrjun febrúar. VG hefur verið að nokkuð hraðri niðurleið í Reykjavík síðustu mánuði því í júní-könnuninni mældist flokkurinn með 20,8%. VG fékk 8,3% atkvæða í kosningunum 2014 og er því enn yfir kjörfylgi sínu.

Píratar sigla lygnan sjó. Þeir eru nú með 13% en voru með 13,3% fyrir rúmum mánuði og 13,7% í könnunni síðasta sumar. Flokkurinn virðist því vera búinn að festa sig í þessu fylgi, sem hlýtur að teljast gott fyrir flokk sem fékk 5,9% í síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn, með Eyþór Arnalds í broddi fylkingar, stendur í stað á milli kannana. Flokkurinn mælist nú með 29% samanborið við 29,1% í síðustu könnun. Flokkurinn sækir í sig veðrið frá því í kosningunum 2014 en þá fékk hann 25,7%.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru langstærstu flokkarnir í borginni með samanlagt rétt tæplega 60% atkvæða. Hinir átta flokkarnir sem komast á blaði í könnuninni eru því með samtals um 40%.

Viðreisn og Miðflokkur ná mönnum inn

Viðreisn, sem enn á eftir að velja sér oddvita í borginni, mælist nú með 6,1% það er nánast það sama og flokkurinn mældist með fyrir rúmum mánuði. Þetta þýðir að flokkurinn næði einum manni í borgarstjórn.

Miðflokkurinn, sem fær 4% samkvæmt könnun Gallup, næði einnig manni inn. Flokkurinn mældist með 1,1% í könnunni 8. febrúar síðastliðinn en daginn eftir að sú könnun birtist var tilkynnt að Vigdís Hauksdóttir myndi leiða lista Miðflokksins í Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .