Andri Sveinsson, stjórnarformaður Kerecis, sagði í ávarpi sínu á aðalfundin Kerecis á mánudaginn að árið hefði verið félaginu afar farsælt og framtíðarhorfur þess væru mjög bjartar.

Yfir tuttugu þúsund sjúklingar hefðu fengið meðhöndlun með sáraroði Kerecis sem væri þrefalt fleiri en árinu áður. Tekjur félagsins jukust úr 29 milljónum dollara í 74 milljónir dollara á milli rekstrarára.

Kerecis væri orðið skuldlaust eftir að hafa lokið 60 milljóna dollara hlutafjárútboði síðasta sumar. Í útboðinu lagði Kirkbi, fjárfestingafélag Kristiansen-fjölskyldunnar, aðaleigenda Lego, til 40 milljónir dollara og eignaðist 6,8% hlut í Kerecis.

Fjármögnunin miðaði við að Kerecis væri 620 milljóna dollara virði, nærri 90 milljörðum króna.

Andri benti á í ræðu sinni að miðað við það væri Kerecis ellefta verðmætasta félagið í Kauphöll Íslands, ef félagið væri skráð á markað. Þá ætti félagið óádregna 30 milljóna dollara lánalínu frá Silicon Valley Bank.

Kerecis þyrfti því að líkindum ekki að ráðast í fleiri hlutafjárútboð nema ef ske kynni í tengslum við mögulega samruna eða yfirtökur fyrirtækja eða hugsanlega skráningu á hlutabréfamarkað síðar meir.

Kerecis í hnotskurn

  • Helsta vara Kerecis er sáraroð, sem framleitt er úr þorskroði á Ísafirði, og nýtist meðal annars til að græða sár vegna sykursýki, bruna og á skurðstofum.
  • Bandaríkin eru stærsta markaðssvæði fyrirtækisins þar sem 168 sölumenn störfuðu í fyrra en markmiðið er að fjölga þeim í 215 á þessu ári og 260 á næsta ári.

Nánar er fjallað um Kerecis í Viðskiptablaðinu, sem kom út 2. febrúar.