Hluthafafundur HB Granda samþykkti í gær tillögu um að nýtt mat fari fram vegna kaupa félagsins á Ögurvík ehf. áður en hluthafar taki endanlega afstöðu til tillögu stjórnar um að staðfesta ákvörðun hennar um viðskiptin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Tillagan var samþykkt af fundarmönnum sem höfðu að baki sér 54,8% atkvæða en 45,2% greiddu atkvæði á móti.  Framhaldshluthafafundur fer fram 2. nóvember næstkomandi, en áður mun hluthöfum kynnt mat Kviku banka á áformunum.

Stjórn HB Granda kynnti fyrr um daginn breytingartillögu við ályktunartillögu Gildis lífeyrissjóðs sem fól í sér að fellt yrði niður ákvæði hennar um skipan sérstakrar þriggja manna nefndar hluthafa til að fylgja málinu eftir. Rétt fyrir hluthafafundinn kynnti Gildi lífeyrissjóður breytingartillögu við eigin tillögu sem gekk í svipaða átt og tillaga stjórnar og féll stjórn þá frá sinni breytingartillögu en studdi í staðinn tillögu Gildis lífeyrissjóðs. Var tillagan samþykkt svo breytt.

Tillagan í heild:

“Hluthafafundur HB Granda hf., dags. 16. október 2018 samþykkir að skipa fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. til þess að meta fyrirhuguð viðskipti um kaup félagsins á öllu hlutafé  Ögurvíkur ehf. og skilmála þeirra. Í þessu felst að leggja fram gagnvart hluthöfum rökstutt álit á því hvort um hagfeld viðskipti sé að ræða fyrir HB Granda hf. og hvort kaupverðið sé í samræmi við það sem ætla mætti að greitt yrði í viðskiptum milli þessara aðila væru engin tengsl  milli þeirra. Þess skal farið á leit við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. að við verðmatið sé m.a. lagt mat á það hversu vel rekstur Ögurvíkur ehf. fellur að rekstri HB Granda hf. þannig að um góðan fjárfestingarkost sé að ræða og hvort slík samþætting sé ákjósanleg fyrir HB Granda hf. Í þessu samhengi skal m.a. leggja mat á samlegðaráhrif vegna fyrirhugaðra kaupa félagsins á Ögurvík ehf. og mat lagt á rekstrarvirði Ögurvíkur ehf. í hendi HB Granda hf. að teknu tilliti til þeirra. Gert skal ráð fyrir því að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. ákvarði viðeigandi matsforsendur í þessum efnum. Kostnaður vegna matsins skal eigi vera hærri en þrjár milljónir króna.

Hluthafafundur HB Granda hf. felur stjórn félagsins að ganga frá samningi við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. í samræmi við framangreint. Jafnframt skulu stjórn og stjórnendur félagsins veita fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru að mati fyrirtækjaráðgjafar Kviku banka hf. til þess að unnt sé að framkvæma framangreint.  Skal stefnt að því að helstu forsendur og niðurstöður álitsins verði gerðar aðgengilegar hluthöfum eigi síðar en 29. október 2018.

Ákvörðun sem fyrir liggur hluthafafundinum um staðfestingu á ákvörðun stjórnar um kaup HB Granda hf. á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf skal frestað til framhaldsfundar sem skal haldinn 2. nóvember 2018 klukkan 17:00 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík. Á þeim fundi skal fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. gera nánar grein fyrir niðurstöðum sínum.“