Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis tilkynnti í dag að það muni efna til hlutafjárútboðs á fimm milljón nýjum hlutum, sem samsvarar 60 milljónum dala eða um 8,3 milljörðum króna miðað við dagslokagengi félagsins á föstudaginn. Jafnframt gerir Oculis ráð fyrir að bjóða þátttakendum 30 daga rétt til að kaupa 15% hlut til viðbótar við úthlutun á sömu kjörum.

Oculis var stofnað árið 2003 af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Fyrirtækið var skráð í kauphöll Nasdaq í New York í byrjun mars síðastliðnum í gegnum samruna við SPAC-félag.

Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur hækkað um 20 prósent frá skráningu. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um á dögunum þá eiga íslenskir fjárfestar yfir fimmtungshlut í Oculis sem er hátt í 12 milljarðar króna að markaðsvirði.

Í tilkynningunni segir Oculis að það hyggst nota ágóða af tilboðinu til að fjármagna rannsóknir á sykursýkisbjúg og öðrum augnsjúkdómum.