Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra segir Ísland þegar mjög framarlega hvað orkuskipti – eitt stærsta mál heimsbyggðarinnar – varðar, enda felist þau í að skipta bensíni, dísilolíu, gasi, olíu og kolum út fyrir græna orkugjafa.

„Við erum ekki með gas, olíu eða kol, en við erum með bensín og dísil, og það er stórt verkefni að skipta þeim út þó svo að það sé farið að ganga prýðilega með heimilisbílinn.“

Herjólfur flaggskip orkskiptanna
Þegar kemur að skipa- og flugsamgöngum er sagan önnur. Tæknin er mun skemur á veg komin og markmiðin eftir því hófstilltari, en mikil gróska er í þróun hennar sem fleygir nú ört fram.

„Stærsta flaggskip okkar í orkuskiptum er Herjólfur,“ segir Guðlaugur og bætir við að almennt hafi verið sýnt fram á að ferjur sem sigla styttri leiðir sé þegar hægt að knýja með rafmagni beint af rafhlöðum.

Flest bendi hins vegar til þess að svokallað rafeldsneyti muni þurfa á stærri skipin og þau sem fara í lengri túra eða milli landa. Tilraunir með notkun raforku til að knýja smábáta eru að hefjast um þessar mundir. Tíminn verði svo að leiða í ljós hversu hratt sú tækni þróist og hvenær verði raunhæft að allur skipaflotinn hætti að brenna jarðefnaeldsneyti.

65-80% ódýrari í rekstri
Staðan í háloftunum er í raun svipuð. Fyrsta rafflugvélin er þegar komin til landsins og í notkun, en aðeins er um litla tveggja sæta vél að ræða. Næsta skref í þeim efnum er þó handan við hornið með fjöldaframleiðslu rafknúinnar 19 sæta flugvélar sem lagt er upp með að verði 65- 80% ódýrari í rekstri.

„Það mun náttúrulega hafa í för með sér gríðarlegar breytingar í almenningssamgöngunum sem innanlandsflugið er. Gert er ráð fyrir að þær flugvélar muni geta flogið á allar leiðir á Íslandi og þar með glætt marga flugvelli sem lítið eru notaðir í dag nýju lífi.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .