Hlutabréfaverð Play lækkaði um 3,3% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi flugfélagsins 0,88 krónur.
Líkt og kunnugt er hafa tveir stærstu hluthafar félagsins lagt fram yfirtökutilboð í allt hlutafé félagsins á eina krónu á hlut. Gengi flugfélagsins hækkaði í viðskiptum daginn eftir og fór upp í 0,98 krónur á hlut en hefur dalað síðan þá.
Gengi félagsins hefur hækkað um rúm 11% síðastliðinn mánuð en lækkað um 12% innan árs.
Gengi JBT Marel lækkaði einnig um 3,3% í 44 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengi félagsins 14.500 krónur á hlut.
Hlutabréfaverð hins sameiginlega félags hefur lækkað um rúm 19% á árinu.
Þá lækkaði hlutabréfaverð Brims um rúm 3% í 46 milljón króna viðskiptum og lokaði gengið í 61,5 krónum.
Hlutabréf í Kviku voru þau einu sem hækkuðu í viðskiptum dagsins er gengi bankans fór upp um hálft prósent í 409 milljón króna viðskiptum.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,04% og var heildarvelta á markaði 2,3 milljarðar.