Árið 2018 daðraði Donald Trump við það að reka Jerome Powell seðla­banka­stjóra Bandaríkjanna er hann var afar ósáttur með vaxta­hækkanir bankans.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal voru yfir­menn innan seðla­bankans og Powell til­búnir að láta reyna á slíka ákvörðun fyrir dómstólum til að verja sjálf­stæði seðla­bankans.

Powell greindi Ste­ven Mnuchin, þáverandi fjár­málaráðherra Bandaríkjanna, að ef Trump myndi reyna velta honum úr stóli myndi hann berjast gegn því.

Sam­kvæmt heimildar­mönnum WSJ lítur Powell svo á að það sé mikilvægt fyrir framtíð seðla­bankans að fara með málið fyrir dómstóla reyni Trump að koma honum úr em­bætti.

Hann mun þó lík­legast þurfa að greiða allan lög­manns­kostnað úr eigin vasa en ljóst er að málið yrði for­dæmis­gefandi.

Blaða­menn spurðu Powell á dögunum hvort hann myndi víkja ef Trump óskaði eftir því og Powell sagði ein­fald­lega „nei“ og bætti síðar við að það væri ólög­legt af for­setanum að krefjast þess.

Trump sagði í júní að hann myndi leyfa Powell að klára skipunar­tíma sinn en bætti síðan við: „Ef mér finnst hann vera að gera rétta hluti.“