R. Sigmundsson ehf. hefur eignast meirihluta í Vélasölunni ehf. og var gengið frá kaupunum um áramótin, segir í tilkynningu.

Stefnt er að því að sameina félögin á árinu og að öll starfsemi þess verði þá undir einu þaki. Stærstu hluthafar í sameinuðu fyrirtæki eru Polar Group ehf., Linda Sólbjörg Ríkarðsdóttir, Sigmundur Karl Ríkarðsson, Úlfar Ármannsson og Stefán Stefánsson. Haraldur Úlfarsson verður framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Í tilkynningunni vegna kaupanna kemur fram að rekstur beggja félaganna hafi gengið vel á síðasta ári og að sameiningin muni gera félögin enn betur í stakk búin við að takast á við harðnandi samkeppni.

R. Sigmundsson ehf. var stofnað árið 1940 og sérhæfir sig í sölu og þjónustu á siglinga-, fjarskipta- og fiskileitartækjum ásamt landmælingatækjum og staðsetningartækjum. Fyrirtækið er eignaraðili að Marport ehf. sem framleiðir og selur veiðafæranema.

Vélasalan ehf. var stofnað 1940. Hefur fyrirtækið sérhæft sig í sölu og þjónustu á vélum og öðrum búnaði fyrir íslenskan sjávarútveg. Hefur fyrirtækið skaðað sér góðan orðstír í meira en 65 ár í þjónustu við íslenska fiskveiðiflotann, skipasmiðjur, fiskvinnslu og iðnfyrirtæki. Með sameiningu félagsins við Vélorku hf. og Véla & tækja ehf. árið 2001 undir merkjum Vélasölunnar varð til eitt öflugasta fyrirtæki á þessu sviði á Íslandi. Hefur það boðið eitt fjölbreyttasta úrvalið af tækjum og rekstrarvörum til sjávarútvegins. Á síðustu árum hefur félagið haslað sér völl í sölu á vatnabátum, sportbátum og öllum búnaði til slíkra báta og er orðið stærst á því sviði á Íslandi.

Vélasalan á meirihluta í pólska fyrirtækinu Skipapol Sp.z.o.o., sem vinnur við skipasmíðaverkefni, bæði nýsmíðar og endurbætur. Dótturfyrirtæki Vélasölunnar er Vélasalan Verkstæði ehf.