Sigurður Ingi Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt til að Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri efnahagsmála, verði ráðinn varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.
Þetta kemur fram á mbl.is en Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins, hefur staðfest þetta í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að vænta megi ákvörðunar frá Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á næstu vikum, en það er forsætisráðherra sem skipar í embættið.
Gunnar Jakobsson, núverandi varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, óskaði eftir því að láta af störfum í lok árs þann 9. apríl sl. Hann hafði verið skipaður í embættið í mars 2020 til fimm ára og var því tæpt ár eftir af skipunartíma hans.