Rautt er yfir að litast á aðalmarkaði Kauphallarinnar eftir fyrstu viðskipti dagsins. Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa 13 félaga af 22 á markaði lækkað.

Gengi bréfa fasteignafélaganna hefur lækkað nokkuð. Gengi bréfa Reita hefur lækkað mest allra félaga á markaði, um 3,2% í 65 milljóna veltu. Eik hefur auk þess lækkað um 2,3% og Reginn um tvö prósent. Næst mesta lækkunin er á gengi Marels, eða um 2,85% í 70 milljón króna viðskiptum.

Þá hefur til að mynda gengi VÍS lækkað um 2,8%, Icelandair um 2,6% og Sjóvá um 1,8%. Mest velta er með bréf Kviku, sem lækkað hafa um 2,5%. Viðskipti með bréfin nema 195 milljónum krónum.

Á hinum enda rófsins hefur gengi Haga hækkað um 0,7% í 55 milljón króna viðskiptum og gengi bréfa Ölgerðarinnar um 1,4% í óverulegum viðskiptum.

Úrvalsvísitalan OMXI10 hefur lækkað um 1,36% frá opnun en heildarvelta viðskipta það sem af er dags hefur numið 822 milljónum króna.