Eftir hressilega hækkun síðustu mánuði hefur raungengi krónunnar ekki verið hærra í rúm fimm ár. Raungengi á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hækkaði um 7,5% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs og hefur ekki verið hærra síðan á þriðja fjórðungi 2018.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion Greiningar, segir raungengið vera orðið hátt og þá sérstaklega út frá hlutfallslegum launakostnaði. Á þann mælikvarða, sem leiðréttur er fyrir framleiðni vinnuafls, er raungengið tæplega 30% yfir langtímameðaltali eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Konráð segir ágætt að muna að ekki er aðeins verið að mæla breytingar á nafngenginu, sem hafi hækkað nokkuð á síðustu misserum, heldur spilast launaþróun þarna inn í. Áhyggjuefni sé hvort mikil hækkun launakostnaðar smitist út í samkeppnishæfni Íslands.

„Það er verið að hækka laun hér á landi mun hraðar umfram framleiðni heldur en í löndunum í kringum okkur. Það er fyrst og fremst það sem er að skýrir svo hátt raungengi.“

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn.