Vísitala raungengis íslensku krónunnar hækkaði um 2,2% milli júlí og ágúst. Raungengi á mælikvarða verðlags, þ.e. þegar gengi krónunnar hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur nú hækkað um nærri 10% í ár og hefur ekki verið sterkara í fimm ár eða frá því í september 2018.
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri ráðgjafar- og greiningarfyrirtækisins Analytica og hagfræðingur, segir að meðal helstu áhrifa sem skýri hækkunina sé ör vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu að undanförnu. Í öðru lagi nefnir hann fjármagnshreyfingar sem eru t.d. háðar vaxtastigi og vaxtamuni við útlönd.
Án þess að fullyrða um það telur Yngvi að fjármagnshreyfingar í kringum viðskipti með stór fyrirtæki, og þá einkum 180 milljarða króna salan á Kerecis, hafi ef til vill haft áhrif á gengið, þó það sé e.t.v. vegna mögulegrar spákaupmennsku sem fylgi slíkum viðskiptum.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Þar er rætt nánar við Yngva og Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðing Arion Greiningar.