Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, veltir því upp í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar hvar sé hægt að heimfæra fjárstuðningi foreldra við íbúðakaup skattalega.
Að mati ráðherrans er hlutfall ungs fólks sem á húsnæði með mesta móti „ólíkt því sem mætti álykta af umræðunni.“
Í minnisblaði ráðherrans sem var kynnt í ríkisstjórn kemur fram að fyrstu kaupendum hefur verið að fjölga þrátt fyrir hátt vaxtastig og eru vísbendingar um að meirihluti ungra Íslendinga njóti einhvers konar aðstoðar við að fjármagna kaupin, t.d. frá skyldmennum, og að umfang aðstoðarinnar hafi vaxið undanfarin tvö ár.
Þá er tekið fram að hlutfall erlendra ríkisborgara sem eiga hér íbúð hefur lækkað þrátt fyrir að þeim hefur fjölgað.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, veltir því upp í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar hvar sé hægt að heimfæra fjárstuðningi foreldra við íbúðakaup skattalega.
Að mati ráðherrans er hlutfall ungs fólks sem á húsnæði með mesta móti „ólíkt því sem mætti álykta af umræðunni.“
Í minnisblaði ráðherrans sem var kynnt í ríkisstjórn kemur fram að fyrstu kaupendum hefur verið að fjölga þrátt fyrir hátt vaxtastig og eru vísbendingar um að meirihluti ungra Íslendinga njóti einhvers konar aðstoðar við að fjármagna kaupin, t.d. frá skyldmennum, og að umfang aðstoðarinnar hafi vaxið undanfarin tvö ár.
Þá er tekið fram að hlutfall erlendra ríkisborgara sem eiga hér íbúð hefur lækkað þrátt fyrir að þeim hefur fjölgað.
Í minnisblaðinu er fjallað um skattalega meðferð fjárhagsstuðnings og tekið er fram að illa hafi gengið að skattleggja þennan stuðning foreldra.
„Almennt fær ríkissjóður ekki miklar skatttekjur af þessum gjörningum,“ segir í minnisblaði Sigurðar.
Þar er tekið fram að fjárstuðningur foreldra sem vilja aðstoða börn sín við að fá þak yfir höfuðið getur verið með ýmsu móti t.d. sem lán, fjárfesting (kaup á hlut í fasteign með börnum), fyrirframgreiddur arfur eða gjöf.
„Hagnaður foreldra af sölu á eignarhlut í fasteign barna er ekki skattlagður ef heildarrúmmál fasteigna foreldris/foreldranna er innan 600m3 / 1.200m3 ef hjón (sem samsvarar 240/480m2). Fyrirframgreiddur arfur sætir 10% skatti. Ef um er að ræða gjöf til barna þá ætti sú ráðstöfun að leiða til skattlagningar í launaskatthlutfalli (31,5-46,3%). Hins vegar eru fá dæmi um að ráðstöfun til barna hafi sætt skattlagningu sem gjöf og spilar þar inn í að strangar sönnunarkröfur hafa verið lagðar á skattyfirvöld að sýna fram á að um gjöf sé að ræða (en ekki lán).”
Samkvæmt ráðherranum er skattaleg meðferð fasteigna „mun hagstæðari hér á landi en í nágrannalöndum okkar.“
Leigutekjur sæta mjög lágum skatti að mati Sigurðar og veldur það hvata til að eignast fasteign sem síðan er hægt að nýta í útleigu til að greiða upp lánin.
Ráðuneytið tekur þó fram að hlutfall ungs fólks sem á fasteign hefur lítið breyst undanfarin tvö ár og mun líklega ekki breytast mikið í ár.
Hins vegar er vakin sérstök athygli á því að á meðan Íslendingar njóta aðstoðar frá skyldmennum er staðan hjá erlendum ríkisborgurum önnur.
„Ekki liggja fyrirtölur um bakgrunn fyrstu kaupenda það sem af er þessu ári. Á undanförnum árum hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað hlutfallslega meðal fyrstu kaupenda. Hlutfall þeirra af íbúafjölda landsins hefur þó aukist enn hraðar og hlutfall erlendra ríkisborgara sem á fasteign lækkað.”
Í minnisblaðinu segir að mikil hækkun launa og „hinn svokallaði þvingaði sparnaður í heimsfaraldrinum” hafi leitt til töluverðrar aukningar lausafjáreigna, þar á meðal hjá ungu fólki.
„Út frá upplýsingum í álagningarskrá má geta sér til um að þær fjölskyldur íslenskra ríkisborgara (einstaklingar og sambúðarfólk) sem eignuðust fyrstu fasteign í fyrra hafi að meðaltali átt 6-9 m.kr. í lausafjáreignir í aðdraganda íbúðakaupanna. Það er um tvöfalt meira að nafnvirði en 2018.”
Í minnisblaðinu segir þó að útborgun við fyrstu íbúðakaup virðist að meðaltali vera töluvert meiri en sem þessu nemur eða um 18 milljónir króna í fyrra.
„Ekki er unnt að fullyrða hvers vegna þetta er en vera má að stór hluti fyrstu kaupenda njóti einhvers konar fjárhagsstuðnings frá foreldrum eða öðrum vandamönnum.”
Í minnisblaði fjármálaráðherra segir að hækkun húsnæðisverðs og hækkun vaxta ásamt samspili þeirra við þjóðhagsvarúðartæki hafi hækkað þröskuldinn inn á íbúðamarkað en að eignamyndun og uppsafnaður sparnaður hafi gert „velgjörðarmönnum fyrstu kaupenda auðveldara fyrir fyrstu kaupenda auðveldara að styðja þá.“
Að mati fjármálaráðuneytisins er tvennt sem hefur valdið þessum aukna fjárstuðningi.
„Annars vegar má segja að hækkun húsnæðisverðs hafi falið í sér tilfærslu auðs frá þeim sem búa ekki í eigin húsnæði til þeirra sem það gera, gjarnan frá ungu fólki til eldra fólks eða frá börnum til foreldra. Með stuðningi við fyrstu kaup barna má líta svo á að foreldrar séu að skila hluta tilfærslunnar til baka. Hins vegar kann aukinn stuðningur að vera leið fjölskyldna til þess að víkja sér undan ströngum reglum um veðsetningu og greiðslubyrði. Eðli máls samkvæmt er þessi stuðningur verulega háður baklandi fólks.
Að lokum segir Sigurður Ingi að það sé töluverður skattalegur hvati til að eignast fasteign sem síðan er hægt að nýta í útleigu til að greiða upp lánin en að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þarf að skattleggja þessa hegðun.
„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að auka skattlagningu á söluhagnað af fasteignum sem fólk á ekki lögheimili í (e. second homes) og fasteignum keyptum í fjárfestingarskyni (e. investment properties).”
Í fjárlögum Sigurðar Inga, þar sem er gert ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs, kemur þessi skoðun ráðherrans einnig fram. Þar er lagt til að heimild til að nýta séreignasparnað inn á húsnæðislán verði afnumin.
Að hans mati hefur „sterkefnað stóreignafólk“ fengið mestan stuðning frá ríkinu með þessu úrræði.