Eignarhaldsfélag Jörundar Jörundssonar og Ásgeirs Þórs Þórðarsonar hagnaðist um 2,2 milljarða króna af sölu á hugbúnaðarfyrirtækinu Orbis Tech til PDI Technologies í fyrra.

Þeir stofnuðu fyrirtækið KLS árið 2005, utan um kassalausn sem Ásgeir þróaði, sem rann síðar inn í fyrirtækið Strikamerki tveimur árum seinna. Árið 2014 seldu þeir hlut sinn í Strikmerki, keyptu út erlenda starfsemi fyrirtækisins og stofnuðu Orbis Tech, sem var höfuðstöðvar í Southampton á Suður-Englandi.

Ári síðar kynntust þeir Nýsjálendingi sem á Invenco, framleiðanda greiðslusjálfsala fyrir bensínstöðvar. Kassakerfi Invenco var þá komið að lokum síns líftíma tæknilega. Orbis og Invenco hófu í kjölfarið formlegt samstarf (e. joint venture).

„Þetta gjörbreytti fyrirtækinu okkar. Annars vegar fengum við aðgengi að öllu forritarateymi Invenco, sem var að mestu í Kúala Lúmpúr í Malasíu, og tókum við gamla kassakerfinu og notendum þess. Hins vegar varð þetta til þess að fórum inn í bensínstöðvabransann, sem við höfðum aðeins að litlu leyti starfað við á Íslandi,“ segir Jörundur.

Eitt fyrsta verk Orbis eftir að samstarfið hófst var að kynna næstu kynslóð Invenco-kerfisins fyrir stjórnendum olíurisans ExxonMobil á Nýja-Sjálandi, sem leist vel á breytingarnar.

Risasamningar við olíurisa

Árið 2019 tók Orbis Tech þátt í útboði hjá svissneska olíufyrirtækinu Puma Energy, sem var að leita að lausn fyrir hátt í þúsund bensínstöðvar í á öðrum tug landa í Afríku og Mið-Ameríku. Lausn Orbis varð að lokum fyrir valinu.

Í lok sama árs tók Orbis þátt í útboði Shell fyrir fimm Evrópulönd, þar á meðal Bretland, og Suður-Afríku.

„Seinni hluta árs 2020 er Shell nánast búið að velja kerfið okkar sem var gríðarleg viðurkenning, sérstaklega í ljósi þess að við vorum að keppa við stór fyrirtæki. Þá fer boltinn svolítið að rúlla hjá okkur.

Þessi markaður er að mörgu leyti mun minni heldur en margur heldur og það fréttist hratt ef einhver er að gera góða hluti. Bæði hafði spurst út að við höfðum unnið útboðið hjá Puma Energy og orðrómur var uppi um að Shell væri nánast búið að velja lausnina okkar. Þá nálgast tveir stórir aðilar í bensínstöðvaheiminum okkur sem vilja báðir kaupa Orbis.“

Annað af fyrirtækjunum er skráð á hlutabréfamarkað í New York. Jörundur og Ásgeir tóku hins vegar tilboði PDI Technologies, m.a. þar sem þeir töldu lausn Orbis eiga betur heima hjá PDI vegna áherslu þeirra á hugbúnaðarþróun. Sölunni lauk formlega í ágúst 2021.

Kerfi Orbis Tech var valin í útboði svissneska olíufyrirtækisins Puma Energy, sem var að leita að lausn fyrir hátt í þúsund bensínstöðvar í á öðrum tug landa í Afríku og Mið-Ameríku.
Kerfi Orbis Tech var valin í útboði svissneska olíufyrirtækisins Puma Energy, sem var að leita að lausn fyrir hátt í þúsund bensínstöðvar í á öðrum tug landa í Afríku og Mið-Ameríku.

Viðtalið við Jörund um sögu Orbis Tech og söluna til PDI má finna í heild sinni íViðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 29. september.