Það var lítið um að vera á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag en velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 1,1 milljarði króna, sem er talsvert minna en á hefðbundnum degi. Mesta veltan var með hlutabréf Marels, eða um 203 milljónir króna, sem féllu um 0,9% í verði. Gengi Marels stendur nú í 644 krónum á hlut og hefur lækkað um fjórðung frá áramótum.

Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan lækkuðu bæði um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Gengi Brims lækkaði um 1,6% og stendur í 93 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar féll um 1,2% í 137 milljóna veltu og stóð í 98,8 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Festi lækkaði næst mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 1,4%. Gengi smásölufyrirtækisins hefur nú fallið um 11% á einum mánuði og stendur í 217 krónum.

Þrjú félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Skeljar fjárfestingafélags, Haga og Eimskips hækkuðu um 1,0%-1,2%. Hins vegar var lítil velta með bréf félaganna.