Rússneska olíufyrirtækið Gazprom lokaði fyrir gasflutninga til Þýskalands í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna í dag og bar fyrir sig árlega viðhaldsvinnu. Stjórnvöld í Þýskalandi óttast að gasflutningar hefjist ekki að nýju þann 21. júlí líkt og Gazprom ráðgerir. Financial Times greinir frá.

„Við erum að fá nokkuð ólík skilaboð frá Rússlandi,“ sagði Klaus Müller, framkvæmdastjóri Orkustofnunar Þýskalands við sjónvarpsstöðina ZDF TV í dag. Fari svo að Gazprom opni ekki fyrir flutning á jarðgasi í kringum 21. júlí þá „mun ástandið líta mjög illa út“ að sögn Müller.

Sjá einnig: Saka Rússa um að keyra upp orkuverð

Stjórnvöld í Þýskalandi og Tékklandi skrifuðu í dag undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau hétu því að ná aftur orkusjálfstæði og hraða umskiptum í minna mengandi orkugjafa.

Framboð af jarðgasi til Ítalíu var einnig skert í dag. Eni, stærsta orkufyrirtæki Ítalíu, sagði að Gazprom myndi nú flytja 21 milljónir rúmmetra á dag, um þriðjungi minna en rússneska ríkisfyrirtækið hefur gert undanfarna daga.