Samtök atvinnulífsins (SA) lagt fram samningstilboð til Eflingar stéttarfélags. Í tilkynningu á vef SA segir að forsenda boðsins sé að nýr kjarasamningur verði undirritaður innan viku, þ.e. eigi síðar en 11. janúar næstkomandi.

SA segja að tilboðið feli í sér kjarasamning sem sé efnislega samhljóða þeim sem samþykktur hefur verið af 18 af 19 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins (SGS). Eflingarfólki býðst kjarasamningur sem gildi afturvirkt frá 1. nóvember 2022.

„SA eru áfram tilbúin til viðræðna við Eflingu um aðlögun innan kostnaðarramma SGS samningsins og þeirra meginlína sem samningur markar.“

SA segjast þó ekki hafa séð málefnalegar forsendur fyrir greiðslu sérstaks framfærsluálags á félagssvæði Eflingar á höfuðborgarsvæðinu, Kjós, Hveragerði, Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

„Efling hefur hins vegar talið að áherslur í kjarasamningi SGS, þar sem verkafólk með starfsreynslu fékk viðbótarhækkanir umfram byrjendur með breytingum á launatöflu, henti ekki félagsfólki Eflingar. SA eru tilbúin að ræða nánar sérstöðu Eflingarfólks, enda samþykki Efling að það verði gert innan kostnaðarramma og meginlína kjarasamnings SGS.“

Auk samningsins við SGS hafa SA undirritað kjarasamninga við VR/LÍV og samflot iðn- og tæknigreina. Samningar hafa því náðst við um 80 þúsund manns.

„Slíkir kjarasamningar eru stefnumarkandi í eðli sínu og leggja því grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði.“

Tryggi verulega kaupmáttaraukningu

SA segir að meðalhækkun kauptaxta kjarasamnings SGS er 11,2% frá 1 nóvember 2022. Seðlabanki Íslands geri ráð fyrir um 5% hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu. „Hækkunin ætti því að tryggja verulegra kaupmáttaraukningu taxtafólks.“

Þá hafi kauptaxtar kjarasamnings Eflingar þegar hækkað um 35.500 kr. á árinu 2022. Lægsti taxti Eflingar hækkaði því um 10,7% fyrr á árinu 2022 og meðaltaxti um 10,3% eða umfram verðbólgu.

„Þegar hækkanir kauptaxta SGS 1. janúar, 1. apríl og 1. nóvember 2022 eru teknar saman þá hefur lægsti taxti SGS hækkað á árinu 2022 um kr. 70.500 og meðaltaxti um kr. 78.000. Það jafngildir um 21 – 24,5% hækkun kauptaxta á einu ári. Með þessum hækkunum verða dagvinnulaun SGS taxtafólks um 900 þús. kr. hærri á árinu 2023 en þau voru á árinu 2021. Meðalheildarlaun, með vaktaálagi og yfirvinnu, hækka mun meira.“