Sala Tesla í Kína dróst saman í nóvember en rafbílaframleiðandinn seldi 78.856 bíla þar í landi í síðasta mánuði. Það mun vera 4,3% lækkun miðað við sama tíma í fyrra en þó 15% hærra en í október.

Tesla hefur verið að glíma við aukna samkeppni frá kínverskum rafbílaframleiðendum eins og BYD og Xiaomi.

Bílasala hjá þessum fyrirtækjum hefur verið nokkuð góð undanfarin misseri, ekki síst vegna styrkja frá kínverskum stjórnvöldum sem renna bæði til bílaframleiðenda og viðskiptavina sem vilja skipta út bensínbílum sínum.

CPCA-bílagreiningasamband Kína áætlaði að heildarsala á rafbílum í Kína hefði aukist um 51% frá því í fyrra en alls seldust 1,46 milljónir eintaka. Þá seldi BYD 504 þúsund bíla í nóvember, sem markar annan mánuðinn í röð þar sem fleiri en 500 þúsund BYD-bílar eru seldir.