Fjárfestingabankastarfsemi í Lundúnum er á „frumstigi“ þess að eiga alvöru endurkomu, samkvæmt Steven Fine, forstjóra fjárfestingabankans Peel Hunt.
Fine segir í fjárfestabréfi að samningagerð væri snúin aftur er yfirtökur og samrunar væru að aukast en Financial Times greinir frá.
Að mati Fine verða frumútboð í Lundúnum fá á næstu mánuðum en stöðugt útflæði úr breskum verðbréfasjóðum hefur verið að draga úr líkunum á því að félög skrái sig í Kauphöllina.
„Ég held það sé enginn skortur á áhugaverðum fyrirtækjum sem vilja skrá sig í bresku Kauphöllina en vandamálið er að það hefur verið útflæði úr hlutabréfasjóðum í 41 mánuð. Þannig hver er að fara kaupa?“
Peel Hunt birti sex mánaða uppgjör í gær er bankinn skilaði hagnaði að nýju eftir töluvert tap í fyrra.
Hagnaður bankans nam 1,2 milljónum punda eða um 210 milljónum króna en samkvæmt uppgjörinu hjálpuðu auknar tekjur af samningagerð fjárfestingabankanum að snúa við rekstrinum.
Hunt varaði þó við því að fleiri samrunar og yfirtökur samhliða afskráningu fyrirtækja væru ekki jákvæðar til lengri tíma þar sem félögum í Kauphöllinni fer fækkandi.
Fjölmörg eignastýringarfélög hafa verið að gera yfirtökutilboð í bresk fyrirtæki meðal annars vegna þess að markaðsvirði þeirra telst lágt í samræmi við tekjur og hagnað.
„Yfirtökur og samrunar eru frábærir en þú ert að tapa skráðum félögum,“ segir Fine og benti á að yfir 100 félögum í Kauphöllinni í Lundúnum bárust yfirtökutilboð í ár og fjölmörg voru afskráð.