Töluvert hefur gustað um Kviku banka síðustu misseri. Bankinn keypti tryggingafélagið TM árið 2021 en seldi það til Landsbankans á þessu ári. Í byrjun árs í fyrra hófust samrunaviðræður Kviku banka og Íslandsbanka en Kvika sleit þeim sumarið 2023.
Töluvert hefur gustað um Kviku banka síðustu misseri. Bankinn keypti tryggingafélagið TM árið 2021 en seldi það til Landsbankans á þessu ári. Í byrjun árs í fyrra hófust samrunaviðræður Kviku banka og Íslandsbanka en Kvika sleit þeim sumarið 2023.
Í ágúst 2023 lét Marinó Örn Tryggvason af störfum sem forstjóri Kviku og Ármann Þorvaldsson tók við stöðunni. Ármann lýsti því í fjölmiðlum að hann hefði ekki áhuga á að endurvekja samrunaviðræður við Íslandsbanka.
Bréfaskriftir Jóns
Stoðir eru stærsti einkafjárfestirinn í Kviku banka, sem og Arion banka. Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur reglulega sent hluthöfum Stoða bréf, þar sem hann fer yfir fjárfestingar félagsins og stöðuna.
Í byrjun ágúst sendi hann hluthöfum slíkt bréf, þar sem honum varð tíðrætt um það hvort ekki væru tækifæri til aukinnar hagræðingar á fjármálamarkaðnum. Talaði hann um að þungt regluverk og aukin erlend samkeppni kallaði á meiri stærðarhagkvæmni.
Hlutabréfaverð hækkar
Íslenski fjármálamarkaðurinn er lítill og yfirlýsingar sem þessar geta haft töluverð áhrif á hann. Eftir þetta bréf Jóns til hluthafa hafa vangaveltur um mögulegar samrunaviðræður Arion banka og Kviku banka fengið byr undir báða vængi.
Ekki nóg með það heldur hafa hlutabréf í Kviku banka hækkað um ríflega 10% síðan Jón sendi bréfið og hlutabréfaverð í Arion banka um tæplega 7%. Á sama tíma hefur úrvalsvísitalan einungis hækkað um 1,6%.
Þess ber að geta að orðrómur um kaup Arion banka á Kviku var farinn af stað töluvert áður en Jón sendi bréfið. Ýmsir hafa spáð því í gegnum tíðina að það gæti komið til þess að Arion og Kvika sameinist. Bankarnir eru báðir öflugir á sviði fjárfestingarbankastarfsemi.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og efni blaðsins hér.