Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðunnar segir það vel þekkt að starfsmenn fái lán frá fyrirtækjum þegar þannig háttar á. Á hluthafafundi félagsins sem haldin var í morgun var samþykkt beiðni Brim hf. sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, um rannsókn á lánveitingunum, en félag hans á um 30% eignarhlut í Vinnslustöðinni.

„Margir sjómenn okkar hafa til að mynda fengið fyrirframgreidd laun, þó vissulega séu þetta hærri upphæðir en það,“ segir Sigurgeir Brynjar, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag námu lánin sem felld voru niður um 6 milljónum króna til hvors fyrir sig.

„Starfsmennirnir höfðu unnið hvor um sig um 40 ár hjá Vinnslustöðinni, og helgað fyrirtækinu allan sinn starfsaldur og ekkert annað gert. Þeir höfðu unnið af trúmennsku og dugnaði, aldrei verið með veikindadaga eða neitt og okkur fannst ekki rétt annað en að þakka þeim fyrir vel unnin störf og hjálpa þeim.“

Svo starfsmennirnir hefðu ekki áhyggjur af heimilum sínum

Sigurgeir Brynjar segir upphæðina ekki hafa skipt sköpum fyrir Vinnslustöðina en hún hafi hins vegar skipt miklu fyrir þessa starfsmenn og tryggt að þeir gætu sinnt störfum sínum.

„Tilgangurinn var að aðstoða þá þannig að þeirra kraftar nýttist í það að vinna hérna í Vinnslustöðinni en ekki hafa áhyggjur af heimilum sínum,“ segir Sigurgeir Brynjar sem spurður hvort þetta sé strangt til getið ekki brot á hluthafalögum svarar því til að um túlkunaratriði sé að ræða.

„Í okkar huga er þetta bara lán til starfsmanna. Það að þeir séu hluthafar er bara því að þeir, eins og allir aðrir starfsmenn Vinnslustöðvarinnar á árinum 2002 og 2003, þá fengu þeir kaupauka sem var 10 þúsund krónur að nafnvirði í Vinnslustöðinni hvort ár. Það gefur þeim ekki neina vigt í ákvarðanaferlinu þegar haft er í huga að heildarnafnverð hlutafjárins í félaginu er um 1,7 milljarðar.“

Ætlað að komi höggi á eigendahópinn

Sigurgeir Brynjar telur að rannsóknarbeiðnin sé ætluð til að koma höggi á eigendahópinn sem heldur á meirihlutanum í félaginu en Viðskiptablaðið hefur fjallað um áratugalangar deilur milli hópanna í félaginu.

„Tilgangurinn er auðvitað sá að reyna að skapa einhverja tortryggni og sá efasemdarfræjum. Vissulega hefur hann það nú í höndunum að við lánuðum þessum tveimur starfsmönnum fyrir tíu árum síðan peninga sem við felldum niður við starfslok þeirra í fyrra,“ segir Sigurgeir Brynjar sem segir Guðmund sífellt vera að reyna að fiska eftir einhverju óhreinu hjá núverandi meirihluta.

„Þetta eru orðnar yfir tíu ára langar deilur sem snúast fyrst og fremst að því að Guðmundur Kristjánsson hefur ítrekað komið fram með órökstuddar dylgjur í fjölmiðla, hótanir um málssóknir eða efnt til málaferla, en þetta er fimmta rannsóknarbeiðnin hans en engin þeirra hefur leitt neitt af sér..“

Krókur á móti bragði Guðmundar

Sigurgeir Brynjar viðurkennir að rannsóknartillaga meirihlutans sem fram kom fyrir helgi um niðurfellingu skulda Guðmundar við Landsbankans sé krókur á móti bragði. „Auðvitað er það þannig að Guðmundur kom með þessa tillögu fyrir nokkru síðan,“ segir Sigurgeir Brynjar en aukahluthafafundurinn var boðaður að beiðni Guðmundar í Brim til að koma málinu á dagskrá.

„En við höfum lengi vitað af þessum afskriftum Guðmundar Kristjánssonar og höfum velt því fyrir okkur að fara með það fyrir hluthafafund Landsbankans að óska eftir að gerð verði rannsókn á því hvernig honum tókst að færa félagið Brim á milli félaga í sinni eigu.

Þetta gerir banki ekki með lokuð augu, heldur veit hann alveg hvað hann er að gera, og það er alveg augljóst að á þessu ári 2010, þá hefði nánast hvaða sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi keypt Brim fyrir 200 milljónir, þetta var gjafagjörningur.“

Verðmat allt að 17 milljarðar ári seinna

Sigurgeir Brynjar segist hins vegar ekki hafa lagt mat á hvers virði Brim sé í dag. „Tæpu ári seinna höfum við samt þetta verðmat í höndunum, það er tilboð hans í Vinnslustöðina,“ segir Sigurgeir Brynjar en þá gerði félagið Stilla, sem var í eigu þeirra bræðra Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona tilboð í hlutabréf í Vinnslustöðinni sem miðuðust við að virði hlutafjár Brims hafi verið á bilinu 10 til 17 milljarðar króna.

„Það er auðvitað ekki við Guðmund sjálfan að sakast þó hann hafi gert góðan díl við Landsbankann, en það þarf auðvitað að velta fyrir sér hvað Landsbankinn hafi þarna verið að gera.“ Bendir Sigurgeir Brynjar á að eftir að hafa skilið eftir 16 milljarða skuldir við Landsbankann þegar þarna var komið sögu sé hann nú kominn með 45 milljarða lán frá bankanum og vísar þá í kaup Brim á hlut Kristjáns Loftssonar í HB Granda.