Fyrirhugaðar breytingar á leigubílalögum fælu í sér afturför á leigubílamarkaðnum að sögn Viðskiptaráðs Íslands.
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðaakstur birtust í samráðsgátt stjórnvalda í lok febrúar sl. Fjölmargir aðilar hafa skilað inn umsögn vegna frumvarpsins, þ.á.m. Viðskiptaráð.
Breytingar með frumvarpinu eru aðallega eftirfarandi:
- Heimild rekstrarleyfishafa til að reka leigubifreiðastöð án starfsleyfis leigubifreiðastöðvar þar sem ein leigubifreið sem hann er skráður eigandi eða umráðamaður að hefur afgreiðslu er felld brott.
- Kveðið er á um skyldur rekstrarleyfishafa til að veita leigubifreiðastöð nauðsynlegar upplýsingar svo að leigubifreiðastöðin geti fullnægt eigin skyldum.
- Skyldur leigubifreiðastöðvar eru auknar og tilgreindar þær upplýsingar sem leigubifreiðastöð skal búa yfir.
- Leigubifreiðastöð er gert að taka við upplýsingum úr rafrænni skrá um upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar rekstrarleyfishafa sem hefur afgreiðslu á stöðinni, um staðsetningu á meðan á ferðinni stendur og um greiðslu sem skráð er í gjaldmæli eða með öðrum fullnægjandi hætti að ferð lokinni.
- Skyldur til varðveislu gagna í 60 daga eru alfarið færðar frá rekstrarleyfishafa til leigubifreiðastöðvarinnar. Kveðið er á um árlega úttekt stafrænna kerfa leigubifreiðastöðvar svo að öryggi og gæði gagna séu tryggð.
- Leigubifreiðastöð er gert að bjóða farveg fyrir kvartanir neytenda er varða verð og gæði þjónustu. Leyfishöfum er um leið gert að upplýsa og leiðbeina neytendum um þann möguleika og möguleika til að kvarta til annarra viðeigandi stjórnvalda.
Heildarkostnaður námskeiðanna 1,4 milljónir
Að mati Viðskiptaráðs fela frumvarpsdrögin í sér „afturför fyrir leigubifreiðaþjónustu á Íslandi.“
Breytingarnar muni auka aðgangshindranir, draga úr samkeppni og vinda ofan af breytingum í átt til aukins frjálsræðis sem gerðar hafa verið undanfarin ár.
„Meðal annars á að taka upp stöðvarskyldu rekstrarleyfishafa á ný, sem mun leiða til hærri verða og lakari þjónustu fyrir neytendur. Nær væri að stjórnvöld einblíndu á að draga úr þeim miklu aðgangshindrunum sem enn eru til staðar þegar kemur að leigubílaakstri.“
Ráðið bendir á að til að verða fullgildur leigubílstjóri þurfi einstaklingur að sitja fjögur námskeið, þ.á.m. almennt ökuréttindanámskeið, sem kosta samtals 850 milljónir króna.
Þar að auki taka námskeiðin samtals 137 klukkustundir sem Viðskiptaráð áætlar að sé um 540 þúsund króna fórnarkostnaður. Heildarkostnaður við að gerast leigubílstjóri sé því að lágmarki 1.390 þúsund krónur.
Ráðið telur að afnema ætti allar námskröfur sem gerðar eru til handhafa leigubílaleyfa sem ekki varða öryggi farþega, ökumanna eða almennings.
„Það þýðir að almenn ökuréttindi dugi til að keyra leigubíla í fólksbifreiðastærð. Ef þær kröfur sem hingað til hafa verið gerðar í námskeiðum eru nauðsynlegar og sannarlega virðisaukandi munu bílstjórar sem áður hafa sótt námskeiðin geta hækkað verð um sem því nemur. Neytendur geta svo kosið hvort þeir versli við leigubílstjóra með eða án slíkra réttinda enda eru það neytendur sjálfir sem eru best til þess fallnir að ákvarða hvern þeir kjósa að eiga í viðskiptum við.“
Þá telur Viðskiptaráð að hverfa eigi frá stöðvaskyldu og taka af öll tvímæli um að hún verði ekki einskorðuð við eina stöð.
„Þá ætti að heimila útgáfu leigubílaleyfa til fyrirtækja og gera fyrirtækjum kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigubílaleyfi. Þá þarf að tryggja að gildandi löggjöf um leigubifreiðar hindri ekki nýsköpun á markaðnum.“