Stjórnendur Strætó telja að fargjöld félagsins séu komin að ákveðnum sársaukamörkum eftir gjaldskrárhækkanir síðustu ára og að ekki sé unnt að hækka verð um meira en 4% á næsta ári. Sölutölur þessa árs gefi það til kynna.
„Miðað við þjónustustigið hjá okkur, þá myndum við segja að við séum komin að þolmörkum,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Félagið hafi fengið ábendingar frá viðskiptavinum um að Strætó sem valkostur í umferðinni sé að verða óhagstæðari. Hann segir Strætó áfram ódýrasta ferðamátinn fyrir utan að ganga eða hjóla. Kostnaðarvitund fólks sé hins vegar þannig að fólk vilji helst hafa fargjöld í Strætó mjög hagstæð.
Stakur farmiði í Strætó kostar í dag 650 krónur, 30 daga kort 10.800 krónur og árskort 108.000 krónur. Börn, ungmenni, aldraðir og öryrkjar fá 50-100% afslátt.
40% markmiðið óraunhæft að svo stöddu
Í eigendastefnu Strætó er kveðið á um að fargjaldastefna Strætó bs. skuli grundvallast á því meginsjónarmiði að fargjaldatekjur standi undir 40% af almennum rekstrarkostnaði. Umrætt hlutfall var 21% á síðasta ári.
„Miðað við núverandi þjónustustig þá er erfitt að ná þessu 40% markmiði,“ segir Jóhannes. „Þegar þetta var sett á sínum tíma voru menn að horfa svolítið til Norðurlandanna þar sem þjónustustigið sums staðar var miklu meira heldur en hjá okkur.“
Hann bendir hins vegar á að hlutfallið hafi verið í kringum 30% árið 2019 og eitt ár hafi það farið upp í 35%. Rekstur Strætó hafi hins komið illa út úr Covid-faraldrinum og brugðist var við með hagræðingu, sem hafði neikvæð áhrif á magnaukningu.
„Eins og staðan er í dag þá erum við að fara mjög hægt í átt að þessu markmiði. Hvort að þetta markmið verði óbreytt í nýja samgöngusáttmálanum á eftir að koma í ljós. Þess má geta að þetta er mjög mismunandi eftir löndum. Samanburðarlöndin okkar eru með þetta allt frá 20% og upp í 50%.“
Í greinargerð viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga a höfuðborgarsvæðinu um uppfærslu samgöngusáttmálaleiðir kemur fram að gert sé ráð fyrir að hlutfall farþegatekna í heildarrekstrarkostnaði muni aukast talsvert og verða um 40% í lok samningstímans árið 2040.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.