Stjórn HB Granda hefur lagt fram breytingartillögu við tillögu Gildis lífeyrissjóðs til hluthafafundar sem mun fara fram seinna í dag. Tillaga lífeyrissjóðsins sneri að því að hluthafafundur samþykki að skipa fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka til að meta fyrirhuguð kaup félagsins á öllu hlutafé í Ögurvík ehf. og skilmála þeirra.

Í tillögunni kom jafnframt fram að hluthafafundur tilnefni þrjá fulltrúa ótengda Útgerðarfélagi Reykjavíkur til að annast verklýsingu og samningsgerð við bankann en stjórn HB Granda hefur nú gagnrýnt þann hluta tillögunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samkvæmt breytingartillögunni sem stjórn HB Granda hefur lagt fram er það talið ótækt að fela ótilgreindum aðilum slíkt verkefni í ljósi þess að valdheimildir þeirra og ábyrgð séu í fullkominni óvissu í lögum. Jafnframt er gagnrýnt að í tillögu Gildis sé ekki að finna tillögu á því hvaða leið skyldi farin í vali á umræddum aðilum og að hæfniskilyrði þeirra séu ekki tilgreind.

„Um er að ræða viðskiptalega ákvörðun sem stjórn tók með fyrirvara um samþykki hluthafafundar sem er eðlilegt að hún leggi tillögu sína fyrir hluthafafund með öllum þeim gögnum og upplýsingum sem hluthafar krefjast af stjórninni að viðlagðri sinni ábyrgð að lögum og samþykktum félagsins," segir í greinargerð stjórnarinnar.

Hluthafafundur HB Granda mun fara fram í dag þann 16. október klukkan 17:00 í Norðurgarði 1, 101 Reykjavík.