Þrír stjórnendur Kviku banka seldu hlutabréf í bankanum fyrir samtals 276 milljónir í gær en öll viðskiptin fóru fram á genginu 24 krónum á hlut, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Viðskiptin áttu sér stað nokkrum dögum eftir að aðilarnir þrír nýttu áskriftarréttindi í kjölfar birtingu árshlutauppgjörs bankans. Nýtingarverð áskriftarréttindanna var 7,16 krónur á hlut, eða um 70% undir markaðsverði hlutabréfanna í dag.
Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri Kviku, seldi 5 milljónir hluta í bankanum fyrir 120 milljónir króna. Ármann keypti sama fjölda hlutabréfa við nýtingu áskriftarréttinda fyrir viku síðan, þá fyrir 35,8 milljónir króna. Þá kom fram að Ármann eigi enn áskriftarréttindi að tæplega 9,7 milljónum hluta í bankanum.
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, seldi í bankanum fyrir 96 milljónir króna í gær. Hannes hafði keypti hlutabréfin á rúmar 28,6 milljónir króna við nýtingu áskriftarréttinda.
Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, seldi 2,5 milljónir að nafnvirði á 60 milljónir króna. Baldur seldi einnig í bankanum fyrir viku síðan og hefur nú selt um 5 milljónir að nafnvirði fyrir nærri 118,8 milljónir króna. Hann hafði innleyst áskriftarréttindi fyrir 2,5 milljónir hluti í bankanum og greiddi fyrir það um 17,9 milljónir króna.