Franski auðkýfingurinn Bernard Arnault, sem situr í öðru sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims, segist hafa selt einkaþotu sína svo að „enginn geti séð hvert ég fer“ eftir að umhverfissinnar byrjuðu að rekja ferðir þotunnar á samfélagsmiðlum. SkyNews segir frá.

Arnault er forstjóri, stjórnarformaður og stærsti hluthafi tískurisans LVMH, sem á m.a. tískumerki á borð við Louis Vuitton og Dior. Auðæfi Arnault fjölskyldunnar eru metin á 150 milljarða dala samkvæmt rauntímalista Forbes.

Fyrr í ár voru Twitter-síður á borð við @i_fly_Bernard og @laviondebernard stofnaðar til að rekja ferðir einkaþotu Arnault fjölskyldunnar og annarra milljarðamæringa, ekki síst til að varpa ljósi á kolefnisspor þeirra.

„Samstæðan átti þotu og við seldum hana eftir allar þessar fréttir,“ sagði hinn 73 ára gamli Bernard Arnault í viðtali við frönsku útvarpsstöðina Radio Classique. „Núna getur enginn fylgst með hvert ég fer þar sem ég leigi vélar þegar ég nota einkaþotur.“

Sonur hans, Antoine Arnault, sagði í sama viðtali að geti reynst LVMH dýrt ef keppinautar félagsins eru með upplýsingar um ferðir fjölskyldunnar.

„Það er ekki mjög gott ef keppinautar okkar vita hvar við erum að hverju sinni,“ sagði Antoine. „Það getur gefið þeim hugmyndir og vísbendingar.“