Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda og eigandi Hvals hf., hefur selt rúmlega 34% eignarhlut sinn, sem hann átti, ásamt öðrum, í gegnum félögin Vogun hf. og Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., til Guðmundar Kristjánssonar, í Brim hf. Halldór Teitsson sem einnig situr í stjórn og átti 3,2% hlut hefur einnig selt alla sína hluti.

Vogun, sem er í 100% eigu Hvals hf., seldi 610.661.942 hluti, en Fiskveiðilutafélagið Venus seldi 9.059.125 hluti. Hvalur hf. er svo aftur í dreifðari eign en stærsti hluthafinn er Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. sem á 43%. Eigendur Venusar eru Kristján Loftsson og Birna Loftsdóttir.

Félögin tvö seldu tæplega 620 milljón hluti í HB Granda, en fyrir átti Guðmundur ríflega 1,6 milljón hluti. Var kaupverðið 35 krónur á hlut, en lokaverðið í kauphöllinni í dag var 30,2, svo hlutirnir voru seldir á tæplega 16% álagi miðað við það.

Heildarkaupverðið er 21.690.237.345 krónur, eða tæplega 21,7 milljarðar króna. Eftir kaupin á Guðmundur, 621.365.864 hluti í félaginu, Halldór engan hlut, en Kristján heldur eftir 249 þúsund hlutum, sem miðað við kaupverðið eru að verðmæti rétt rúmlega 8,7 milljóna króna.