Síminn og R. Sigmundsson hafa ákveðið að hefja samstarf á sviði fjarskipta og stofna nýtt fyrirtæki, sem mun sérhæfa sig í fjarskiptalausnum fyrir sjávarútveginn, segir í fréttatilkynningu.

?Með samstarfinu er Síminn að efla verulega þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki og mun í gegnum Radíómiðun bjóða hugbúnaðar- og fjarskiptalausnir sem sérsniðnar eru að þörfum þessara viðskiptavina," segir Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri, hjá Símanum.

R. Sigmundsson er leiðandi fyrirtæki í sölu siglinga- og fiskileitartækja og þjónustu fyrir sjávarútveginn en Síminn er í fararbroddi varðandi fjarskipta- og hugbúnaðarlausnir, jafnt á landi sem á sjó. Fyrirtækin hafa í gegnum árin unnið mikið saman en eru að styrkja það farsæla samstarf enn frekar með stofnun Radíómiðunar.

Haraldur Úlfarsson framkvæmdastjóri R. Sigmundssonar sér mikil tækifæri í samstarfinu við Símann.

?Með því getur félagið bætt enn frekar vöruframboð sitt við sjávarútveginn. Við kappkostum að veita heildarlausnir á sviði siglinga-, fiskleitar- og fjarskiptatækni. Samstarfið við Símann snýr mestmegnis að fjarskiptahluta okkar starfsemi," segir Haraldur.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu segir að markaður gervihnattaþjónustu er svo dæmi séu tekin samkeppnismarkaður án landamæra og deilist hér á landi milli innlendra endursölufyrirtækja og erlendra fyrirtækja sem starfa í umboði gervihnattafyrirtækjanna. Möguleikar til útrásar aukast með stofnun Radíómiðunar og hagkvæmara verður að þróa núverandi lausnir og aðlaga þær að nýjum mörkuðum.

Samkeppnisstaða gagnvart erlendum aðilum sem eru að selja sömu þjónustu mun batna og að öllum líkindum verður hægt að tryggja samkeppnishæfara verð. Stofnun fyrirtækisins er gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.