Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skiluðu 4,2 milljarða króna hagnaði á árinu 2024, samkvæmt nýbirtu ársuppgjöri félagsins. Arðgreiðslustefna félagsins miðar við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs að teknu tilliti til gjaldþrots.

Samþykkt var á stjórnarfundi félagsins í dag að leggja til við hluthafafund að greiða út arð að fjárhæð 3,4 milljarða eða 2,94 krónur á hlut.

Samsett hlutfall Sjóvár var 96,2% fyrir árið í heild. Hlutfallið er kennitala sem mælir arðsemi vátryggingareksturs og er samanlagður tjónakostnaður, rekstrarkostnaður og endurtryggingakostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Ef hlutfallið er yfir 100% skilar vátryggingareksturinn ekki hagnaði.

Ávöxtun fjárfestingaeigna félagsins í stýringu var 9,4% á árinu og er það yfir langtímaáætlunum.

Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 3.435 milljónum króna á árinu, sem er lítillega lægra en árið 2023, þegar hagnaðurinn nam 3.606 milljónum króna.

Fjárfestingarstefna félagsins hefur engu að síður skilað stöðugri ávöxtun, og var hún 5,4% á fjórða ársfjórðungi 2024, samanborið við 4,4% á sama tímabili árið áður.

„Markaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 milljónir króna,” segir Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá.

Á fjórða ársfjórðungi nam hagnaður félagsins 2.812 milljónum króna, samanborið við 2.321 milljón króna á fjórða ársfjórðungi 2023.

Hagnaður af fjárfestingastarfsemi nam 2.679 milljónum króna á fjórðungnum, sem er umtalsverð hækkun frá 1.890 milljónum króna á sama tíma í fyrra.

Hins vegar dróst hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta saman og nam 313 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 699 milljónir króna árið áður.

„Horfur fyrir árið 2025 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1.700 – 2.400 m.kr. og samsett hlutfall 93 - 95%. Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu nemi 8,5% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu. Ekki verður upplýst um frávik frá afkomu af fjárfestingastarfsemi nema þær verði raktar til verulegra breytinga á óskráðum eignum eða á eignasafni. Þá má ætla að áhrif áfallinna vaxta (vöxtunar) vátryggingaskuldar verði neikvæð um 1.500 m.kr. miðað við óbreytt vaxtastig og stærð vátryggingaskuldarinnar,” segir Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá.