Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) beina sjónum0 sínum að framleiðni íslenska hagkerfisins í nýbirtum úttektum sínum um stöðu mála hér á landi. Sérfræðingar beggja stofnana lýsa yfir áhyggjum af þróun framleiðni í hagkerfinu og benda á hún muni að óbreyttu grafa undan lífskjörum hér á landi.

Þó svo að framleiðni í íslenska hagkerfinu teljist nokkuð mikil í alþjóðlegum samanburði kemur fram í skýrslu OECD að blikur hafi tekið að birtast á lofti árið 2008. Vöxtur framleiðni hefur minnkað stöðugt frá þeim tíma.

Eins og fram kemur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er framleiðni mikil í geirum eins og sjávarútvegi, fiskeldi, fjármálaþjónustu og í upplýsingatækni. Annað er upp á teningnum þegar kemur að geirum á borð við ferðaþjónustu, verslun og þjónustu og annarri matvælaframleiðslu en sjávarútvegi. Vandinn verður þyngri þegar haft er í huga að vægi síðarnefndu greinanna hefur vaxið undanfarin áratug og hefur meiri þungi í hagkerfinu færst til geira sem eru mannaflsfrekari, á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð, sem eru með lægri framleiðni en þeir sem fyrst voru taldir upp.   Að þessu við bættu hefur vöxtur opinbera geirans mikil áhrif á þessa þróun.

Áformin grafa undan framleiðni

Ljóst er að áform ríkisstjórnarinnar um margföldum veiðigjalda munu draga úr fjárfestingu í greininni og grafa undan framleiðni. Það er ekki síst þess vegna sem mörg íslensk tæknifyrirtæki hafa varað við þessum áformum og áhrifum þeirra á nýsköpun í efnahagslífi.

Þannig sendu átta tæknifyrirtæki, sem hafa sérhæft sig í nýsköpun og þjónustu við sjávarútveginn,  umsögn um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalda og lýstu yfir miklum áhyggjum vegna málsins. Fyrirtækin sem um ræðir eru KAPP ehf., Kælismiðjan Frost, Micro, Ístækni ehf., Samey Robotics, KAPP Skaginn ehf. og Vélfag. Í umsögninni segir:

„Á Íslandi hefur skapast verðmæt þekking og öflugt umhverfi nýsköpunar fyrir sjávarútveginn, sem hefur leitt af sér gríðarlega verðmætasköpun fyrir greinina og aukið samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru með þeim fremstu í heiminum vegna þess nána samstarfs sem félögin hafa átt við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki við þróun lausna, sem síðan eru seldar um allan heim og búa þá til enn meiri verðmæti í formi útflutningstekna og fjölbreyttra starfa við þjónustu og tækniþróun um allt land.“

Í umsögninni segir jafnframt að lausnirnar sem þessi fyrirtæki selja séu oft dýrar fjárfestingarvörur sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa tileinkað sér til að auka virði afurða, bæta rekstrarafkomu og samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum en ljóst er að breyting atvinnuvegaráðherra muni minnka eftirspurn eftir slíkum vörum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.