Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur birt tilkynningu á vef sínum um þar sem fram kemur að ekkert í sátt eftirlitsins og Festi, móðurfélag Krónunnar, frá árinu 2018 komi í veg fyrir að félagið, eða aðrir dagvörusalar, opni lágvöruverðsverslun á Hellu.

„Samkvæmt sáttinni skuldbatt Festi sig einvörðungu til þess að kaupa ekki eða leigja sama húsnæði í 10 ár frá sölu á verslun Kjarvals. Sáttin takmarkar því ekki möguleika Festi á opnun lágvöruverðsverslunar í öðru hentugu húsnæði á svæðinu.“

Krónan rak áður verslun undir merkjum Kjarvals í verslunar- og þjónustumiðstöðinni Miðjunni á Hellu. Samkaup tók við rekstri verslunarinnar árið 2021 og rekur þar verslun undir merkjum Kjörbúðarinnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viðskiptablaðið fjallaði í gær um ákvörðun byggðaráðs Rangárþings ytra að láta vinna tillögur að hentugum lóðum undir lágvöruverslun á Hellu.

Sveitarstjóri Rangárþings ytra, Jón G. Valgeirsson, lýsti óánægju meðal íbúa sveitarfélagsins vegna ofangreindrar sáttar sem leiddi til þess að Krónan þurfti að selja verslun sína á Hellu, sem rekin var undir merkjum Kjarval, árið 2021. Samkaup tóku við versluninni og hafa rekið hana undir merkjum Kjörbúðarinnar undanfarin ár.

„Okkur finnst ekki sanngjarnt að við höfum þurft að greiða fyrir það með því að ýta versluninni út og á meðan sáttin er í gildi þá getur Krónan ekki opnað verslun á Hellu. Það geta hins vegar aðrar verslanir eins og Nettó og Bónus komið í staðinn,“ sagði Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Óttuðust að öll dagvörusala á svæðinu yrði í höndum Festi

SKE segir í tilkynningu á vef sínum að ranglega hafi verið fullyrt að Festi geti ekki opnað verslun á Hellu vegna umræddrar sáttar vegna samruna Festi og N1.

Eftirlitið segir að við rannsókn á samruna N1 og Festi árið 2018 hafi komið í ljós að samruninn myndi raska samkeppni í sölu dagvöru á svæði í kringum Hellu og Hvolsvöll þar sem nánast öll dagvörusala á svæðinu yrði í höndum Festi í kjölfar samrunans.

„Hefði Festi þar með haft í hendi sér að hækka verð og draga úr þjónustu á svæðinu, s.s. þrengja opnunartíma. Könnun á meðal viðskiptavina verslana á svæðinu studdi þessa niðurstöðu.“

SKE segir að til að bregðast við þessari stöðu hafi Festi lagt til sölu á verslun Kjarvals á Hellu. Fram hafi komið í málinu að húsnæði Festi á Hellu hentaði illa fyrir stærri dagvöruverslun (lágvöruverðsverslun eins og Krónuna). Lágvöruverslun hafi því ekki verið til staðar á Hellu á þeim tíma.

„Samkeppniseftirlitið féllst á þessa tillögu Festi. Í söluskilyrðum var gerð krafa um að kaupandi myndi reka sambærilega verslun og Kjarval í verslunarhúsnæðinu. Á grundvelli þess keypti Samkaup reksturinn og var hin nýja verslun, Kjörbúðin, talin sambærileg þeirri sem fyrir var.“