Hluta­bréf í fjár­festinga­fé­laginu Skel hækkuðu um 6% í Kaup­höllinni í dag í 37 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Skeljar var 12,4 krónur en fé­lagið stóð í 11,7 krónum fyrir helgi.

Félagið hefur átt erfitt uppdráttar á markaði efti árshlutauppgjör fyrri hluta árs um miðjan ágúst. Samkvæmt uppgjörinu hagnaðist fé­lagið um 2,1 milljarð á fyrstu sex mánuðum ársins sem er helmingi minni hagnaður en á sama tíma­bili í fyrra.

Eignir fé­lagsins námu 42,1 milljarði króna á meðan eigið fé nam 34,9 milljörðum sem sam­svarar 18,1 krónum á hvern út­gefinn hlut.

Gengi Skeljar tók ör­lítið við sér eftir uppgjörið en hefur nú fallið síðan þá um rúm 10%.

VÍS hækkaði síðan um tæp 3% í Kaup­höllinni í dag í 28 milljón króna við­skiptum en fjár­festinga­fé­lagið SKEL er næst stærsti hluta­hafi VÍS með 9,25% hlut.

Af­koma VÍS af vá­tryggingar­starf­semi hefur dregist veru­lega saman á milli ára en fé­lagið hefur hagnast á fjár­festinga­starf­semi í staðinn.

Afkoma af vátryggingarstarfsemi nam 183 milljón krónum á öðrum árs­fjórðungi sem er lækkun úr 460 milljónum árið áður á meðan afkoma af fjárfestingarstarfsemi hækkaði úr 295 milljónum í 1,2 milljarð króna á fjórðungnum.

Lítil hreyfing á Eik eftir hluthafafund

Engin önnur fé­lög hækkuðu meira en 1% en Kvika fór upp um 0,94% í 139 milljón króna við­skiptum og Síldar­vinnslan hækkaði um 0,93% í 23 milljón króna við­skiptum.

Hluta­bréf í fast­eigna­fé­laginu Eik hækkuðu um 0,83% í dag í eins milljón króna við­skiptum.

Dræmur dagur hjá flugfélögunum

Reginn lækkaði um 0,41% í Kaup­höllinni í dag í við­skiptum sem náðu ekki yfir eina milljón.

Öl­gerðin lækkaði mest allra skráðra fé­laga en gengi fyrir­tækisins fór niður um 1,21% í 14 milljón króna við­skiptum.

Gengi Marels lækkaði um 0,88% í 301 milljón króna við­skiptum á meðan Al­vot­ech lækkaði um 0,81% í 68 milljón króna við­skiptum.

Play hélt á­fram lág­flugi sínu og lækkaði um 8% í 21 milljón króna við­skiptum og endaði dagsloka­gengið í 8 krónum.

Gengið hefur ekki verið lægra síðan fé­lagið var skráð á First North markaðinn.

Engin hreyfing var á gengi Icelandair í 87 milljón króna veltu í dag. Dagslokagengið var 1,55 krónur líkt og fyrir helgi.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,1% og var heildar­velta í Kauphöllinni 2 milljarðar.