Hlutabréf í fjárfestingafélaginu Skel hækkuðu um 6% í Kauphöllinni í dag í 37 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Skeljar var 12,4 krónur en félagið stóð í 11,7 krónum fyrir helgi.
Félagið hefur átt erfitt uppdráttar á markaði efti árshlutauppgjör fyrri hluta árs um miðjan ágúst. Samkvæmt uppgjörinu hagnaðist félagið um 2,1 milljarð á fyrstu sex mánuðum ársins sem er helmingi minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra.
Eignir félagsins námu 42,1 milljarði króna á meðan eigið fé nam 34,9 milljörðum sem samsvarar 18,1 krónum á hvern útgefinn hlut.
Gengi Skeljar tók örlítið við sér eftir uppgjörið en hefur nú fallið síðan þá um rúm 10%.
VÍS hækkaði síðan um tæp 3% í Kauphöllinni í dag í 28 milljón króna viðskiptum en fjárfestingafélagið SKEL er næst stærsti hlutahafi VÍS með 9,25% hlut.
Afkoma VÍS af vátryggingarstarfsemi hefur dregist verulega saman á milli ára en félagið hefur hagnast á fjárfestingastarfsemi í staðinn.
Afkoma af vátryggingarstarfsemi nam 183 milljón krónum á öðrum ársfjórðungi sem er lækkun úr 460 milljónum árið áður á meðan afkoma af fjárfestingarstarfsemi hækkaði úr 295 milljónum í 1,2 milljarð króna á fjórðungnum.
Lítil hreyfing á Eik eftir hluthafafund
Engin önnur félög hækkuðu meira en 1% en Kvika fór upp um 0,94% í 139 milljón króna viðskiptum og Síldarvinnslan hækkaði um 0,93% í 23 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréf í fasteignafélaginu Eik hækkuðu um 0,83% í dag í eins milljón króna viðskiptum.
Dræmur dagur hjá flugfélögunum
Reginn lækkaði um 0,41% í Kauphöllinni í dag í viðskiptum sem náðu ekki yfir eina milljón.
Ölgerðin lækkaði mest allra skráðra félaga en gengi fyrirtækisins fór niður um 1,21% í 14 milljón króna viðskiptum.
Gengi Marels lækkaði um 0,88% í 301 milljón króna viðskiptum á meðan Alvotech lækkaði um 0,81% í 68 milljón króna viðskiptum.
Play hélt áfram lágflugi sínu og lækkaði um 8% í 21 milljón króna viðskiptum og endaði dagslokagengið í 8 krónum.
Gengið hefur ekki verið lægra síðan félagið var skráð á First North markaðinn.
Engin hreyfing var á gengi Icelandair í 87 milljón króna veltu í dag. Dagslokagengið var 1,55 krónur líkt og fyrir helgi.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,1% og var heildarvelta í Kauphöllinni 2 milljarðar.