Töluvert hefur verið rætt um skemmdarverk á sæstrengjum eftir að tveir strengir í Eystrasalti rofnuðu í nóvember síðastliðnum. Annar strengjanna liggur á milli Svíþjóðar og Litháen en hinn á milli Finnlands og Þýskalands. Stjórnvöld í Svíþjóð og Litháen rannsökuðu slitið sem skemmdarverk.
Atlantshafsbandalagið (NATO) ákvað í janúar að auka eftirlit með neðansjávarinnviðum Eystrasalts í kjölfar atburða. Í síðasta mánuði tilkynntu sænsk og finnsk stjórnvöld um rannsókn á grunuðum skemmdarverkum á C-Lion1 strengnum sem liggur milli Finnlands og Svíþjóðar.
Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice ehf. sem rekur þrjá fjarskiptasæstrengi til Evrópu, segist hafa áhyggjur af mögulegum skemmdarverkum. Hann ítrekar að kerfi Farice sé hannað til að þola vel náttúruleg áföll. Þá sé langalgengasti slitvaldur sæstrengja í dag fiskveiðar, t.d. þegar veiðarfæri eða akkeri rekast í strengina.
„Með þrjá strengi erum við almennt í nokkuð góðum málum. Ef skemmdarverk eiga sér hins vegar stað, ef það er illur vilji að baki, þá getur öll tölfræðin farið. Það er erfitt að eiga við það. Þannig að við höfum auðvitað áhyggjur af því þegar að athyglin er komin á þessa viðkvæmu innviði og farið er að slíta þá að því er virðist með illum vilja.
Við treystum á Landhelgisgæslu Íslands til að hafa eftirlit með strengjunum í landhelgi Íslands og svo systurstofnanir hennar í Írlandi, Bretlandi og Danmörku til að vakta hinn endann. Svo þarf að huga að því sem gerist á opnu hafi, utan landhelgi nokkurs lands. Það er einmitt þarna sem það skiptir svo miklu máli að eiga í samstarfi við vinaþjóðir, ekki bara upp á landhelgi vinaþjóðanna heldur til að hafa eftirlit með þessum eignum í opnu hafi.“
Hann fagnar viðbrögðum NATO við ofangreindum atburðum en bandalagið hefur sett á fót aðgerðarteymi sem hefur það hlutverk að samræma aðgerðir með eftirliti og vöktun á þessum innviðum.
Óttast mest slit á öllum strengjunum
Spurður um svartsýnustu sviðsmyndirnar, segir Þorvarður að hann óttist mest þá sviðsmynd þar sem allir þrír strengirnir væru klipptir og skortur væri á viðgerðarskipum.
„Þá held ég að við séum bara komin í stærri spurningar en ég get endanlega svarað,“ segir hann, spurður um viðbragðsáætlanir við þeirri óhugnanlegu sviðsmynd.
„Við eigum okkar viðbragðsáætlanir varðandi bilanir og slit. Við erum með samninga við viðgerðarskip og eigum í mjög góðum samskiptum við Landhelgisgæsluna. Í gegnum hana eigum við í samskipti við erlendar stofnanir til að tryggja að eftirlit með þessum eignum sé eins gott eins og hægt er. Mér finnst mikið hafa áunnist núna á síðustu árum hvað það varðar. Upplýsingaskiptin eru orðin betri.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Þorvarð í sérblaðinu Iðnþing 2025. Þar ræðir hann nánar um fjarskiptaöryggi Íslands og jákvæð áhrif gagnaversiðnaðarins á útlandasambönd.