Rúmlega átján milljarða króna kröfum var lýst í þrotabú BM Vallár en upp í þær fengust tæplega 4,3 milljarðar. Félagið var tekið til þrotaskipta í maí 2010 en skiptum á því lauk í síðustu viku. Skiptalokin voru tilkynnt í Lögbirtingablaðinu í dag.
Veðkröfur voru langstærstur hluti krafnanna og námu þær tæpum 15,5 milljarði. Veðhafar fengu fjóra milljarða við sölu eigna eða með því að leysa hinar veðbundnu eignir til sín.
Upp í lýstar búskröfur, sem til féllu á greiðslustöðvunartíma, greiddust samþykktar kröfur fyrir 128 milljónir. Alls voru búskröfur 217 milljónir rúmar. Forgangskröfur námu tæpum hálfum milljarði en kröfur að fjárhæð 363 milljónum fengust samþykktar. Upp í hinar samþykktu kröfur fundur 159 milljónir króna.
Sjá einnig: Víglundur: BM Vallá var á aftökulista
Almennar kröfur voru ríflega tveir milljarðar króna í hinum ýmsu gjaldmiðlum. Ekki var tekin afstaða til þeirra þar sem ekki voru til fjármunir til úthlutunar upp í þær.
Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu árið 2012 að
erlendar skuldir hafi sligað rekstur BM Vallár
í kjölfar gengishruns. Félagið fékk greiðslustöðvun í febrúar 2010 og reyndu stjórnendur að ná nauðasamningum. Fulltrúar Arion féllust ekki á slíkt og félagið því tekið til skipta.