Margir hugsanlegir fjárfestar hafa skoð- að rekstur Fréttatímans á síðustu vikum. Meðal þeirra sem hafa skoðað reksturinn eru hluthafar í vefritinu Kjarnanum. Þeir misstu áhugann þegar þeim varð ljós skuldastaða Morgundags ehf., útgáfufélags Fréttatímans.

Samkvæmt samantekt yfir skuldir Fréttatímans og upplýsingum Viðskiptablaðsins nema skuldirnar yfir 200 milljónum króna.

Stærstu kröfuhafar Morgundags eru Vogabakki ehf., Michael Jenkins og Gunnar Smári Egilsson, hver aðili með um 40 milljóna króna kröfu. Landsprent og Árvakur, prentsmiðja og dreifingaraðili blaðsins, eiga tæplega 40 milljóna króna kröfu.

Félag Sigurðar Gísla Pálmasonar, Dexter ehf., á 25 milljóna króna kröfu á félagið. Félagið skuldar starfsmönnum laun fyrir um 5 milljónir króna og skuldar launatengd gjöld fyrir tæpar 20 milljónir. Einhverjir þessara kröfuhafa munu vera tilbúnir að slá af kröfum sínum, en Viðskiptablaðið hefur ekki frekari upplýsingar þar um.

Utan þessa skuldar félagið smærri kröfur. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að verktakar hafi ekki fengið greitt um nokkurra mánaða skeið og að ekki hafi verið staðið skil á lífeyrisgreiðslum starfsmanna frá því fyrir áramótin síðustu.

Í janúar tilkynnti Fréttatíminn að Vogabakki hefði selt 36% hlut sinn í Morgundegi af persónulegum ástæðum. Vogabakki er í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Utan 40 milljóna kröfu félags þeirra Árna og Hallbjörn lögðu þeir félaginu til 25 milljónir í formi hlutafjár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .