ÍSAR TorVeg-jeppinn er hugsaður fyrir björgunarsveitir, ferðaþjónustu sem og fjársterka einstaklinga. Hægt verður að fá jeppann 4, 6 eða 8 dyra og fyrir allt að 18 manns. ÍSAR er sem sagt vörumerkið en gerðin á þeim jeppa sem verið er að smíða nefnist TorVeg, sem stendur fyrir torfærur og vegir.

Ari Arnórsson, stofnandi ÍSAR, segir að jeppinn verði fyrsti farþegabíll heims, sem smíðaður verði frá grunni fyrir 46 til 54 tommu dekk. Við hönnun jeppans hafi verið haft samráð við fjölda aðila, til dæmis fulltrúa björgunarsveitanna.

Ari er búinn að vinna að þessu verkefni í meira en áratug en nú er kominn skriður á það. Ástæðan fyrir því er sú að fyrr í sumar fengu Jakar ehf. styrk frá Tækniþróunarsjóði. Ef allt gengur að óskum mun fyrirtækið fá 15 milljónir króna á ári í þrjú ár eða samtals 45 milljónir.  Ari segir að auk sjóðsins séu fjárfestir búnir að leggja fé í verkefnið.

„Styrkur Tækniþróunarsjóðs er forsendan fyrir því að við höfum getað farið af stað að nýju með verkefnið," segir Ari. „Við erum búnir að fá sex milljónir en ef við stöndum okkur, framvinda verkefnisins verður með eðlilegum hætti, þá eigum við kost á samtals 15 milljónum króna á einu ári. Við höfum síðan möguleika á að framlengja samninginn tvisvar og þá er samningurinn í heild til þriggja ára."

Spurður hvort framleiðsla ofurjeppans verði að veruleika svarar Ari: „Já, hún verður að veruleika. Það er búið að afla nægilegs fjármagns til þeirra skrefa sem eru framundan. Um leið og frumgerðin er komin á götuna þá erum við gjörólíkri aðstöðu til að fjármagna áframhaldið. Miðað við hraðann á verkefninu síðustu vikur þá á ég von á því að frumgerðin verði komin á götuna á fyrri hluta næsta árs  og raðsmíði hefjist í framhaldinu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð