Áfrýjunarnefnd Samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í dag að dagsektir Samkeppniseftirlitsins á sjávarútvegsfyrirtækið Brim hafi verið ólöglegar.
Samkeppniseftirlitið ákvað í júlí að leggja á 3,5 milljón króna dagsektir á Brim til þess að knýja fyrirtækið til að láta af hendi allar umbeðnar upplýsingar í tengslum við athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi. Um er að ræða hæstu dagsektir í sögu eftirlitsins.
Málið snýr að athugun á vegum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra en ráðuneytið var að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem hefur rannsóknarheimildir, til að vinna fyrir sig á sama tíma og ráðherra gat stýrt rannsókninni með fjárveitingarvaldi.
„Samkeppniseftirlitið er ekki að fara að gildandi lögum“
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, taldi slíkt vera ólöglegt og kærði málið til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála.
„Við sögðum strax í upphafi að þetta gæti ekki staðist að eitt stjórnvald gæti fengið annað stjórnvald til að rannsaka einstaklinga og fyrirtæki úti í bæ,“ segir Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið.
„Þetta er alveg skýrt og það er þannig að Samkeppniseftirlitið er ekki að fara að gildandi lögum. Lögin eru alveg skýr,“ bætir Guðmundur við.
„Þetta er skýr niðurstaða áfrýjunarnefndar“
Í verktakasamningnum milli matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins segir beinum orðum að ráðuneytið hafi rétt til að stöðva millifærslur eða fresta þeim telji það framkvæmd verkefnisins ekki í samræmi við samninginn við ráðuneytið.
„Í samkeppnislögum er ekki gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstakar athuganir stofnunarinnar eða tilhögun þeirra sem leiði til þess að stofnunin skili niðurstöðum sínum til þeirra í formi skýrslna gegn greiðslu. Verður að telja að slíkt samræmist ekki því hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem því er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðs stjórnvalds,“ segir í niðurstöðum áfrýjunarnefndar.
„Með hliðsjón af því verður þaðan af síður talið að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum til að knýja á um afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa,“ segir enn fremur í úrskurði áfrýjunarnefndar.
Spurður um hvort hann telji líklegt að SKE muni láta reyna á úrskurð áfrýjunarnefndar fyrir dómstólum segir Guðmundur að það kæmi sér verulega á óvart.
„Ég get ekki ímyndað mér að stjórn Samkeppniseftirlitsins fari með þetta mál áfram. Þetta er skýr niðurstaða áfrýjunarnefndar,“ segir Guðmundur og bætir við að „þetta sé sigur fyrir almenning og fyrirtækin í landinu.“