Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði 7,3% á Íslandi í ár. „Svo mikill hefur hagvöxtur ekki verið hér á landi í 15 ár,“ segir í nýrri þjóðhagsspá bankans en í maí síðastliðnum átti hann von á tæplega 5% hagvexti í ár.

„Enn meiri kraftur færist í útflutningsvöxtinn og verður hann helsta rót hagvaxtar á seinni helmingi ársins. Vöxtur fjárfestingar verður einnig talsverður á seinni árshelmingi en verulega dregur úr einkaneysluvexti eftir ríflega 11% vöxt á fyrir helmingi þessa árs.“

Þá telur greiningardeildin að hagvöxtur verði 2,2% á næsta ári, einkum vegna aukins útflutnings. Hagvöxtur verði svo 2,4% árið 2024. „Verður þá farið að draga talsvert úr útflutningsvextinum en á sama tíma tekur neysla og fjárfesting nokkuð við sér á nýjan leik.“

Til samanburðar var 4,4% hagvöxtur í fyrra en landsframleiðsla dróst saman um 6,8% árið 2020.

Krónan muni styrkjast um 6%

Krónan styrktist um tæplega 7% á fyrstu fimm mánuðum ársins en lækkaði svo um 5% frá júníbyrjun til ágústloka. Greiningardeildin segir horfur á styrkingu krónunnar á komandi misserum og telur að krónan verði 6% sterkari í árslok 2024 held en í byrjun þessa mánaðar. Sú spá tekur mið að því að raungengi krónunnar miðað við hlutfallslegt verðlag verði svipað og árin 2018-2019.

Greiningardeildin tekur þó fram að horfur um utanríkisviðskipti hafi dökknað frá því maíspá bankans og því sé meðvindur með krónunni ekki jafn sterkur og áður var búist við.

„Þó er viðskiptaafgangur í kortunum þegar fram í sækir, vaxtamunur talsverður, erlend staða þjóðarbúsins er sterk, vaxtarhorfur betri en gengur og gerist víða erlendis næsta kastið og verðbréfaeign erlendra aðila fremur lítil í sögulegu samhengi.“

Hins vegar telur Íslandsbanki að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða verða væntanlega talsverðar næstu misserin sem komi til með að vega á móti styrkingu krónunnar.

Verðbólga 6,3% að meðaltali á næsta ári

Verðbólga á Íslandi mældist 9,7% í ágúst og hjaðnaði frá því í júlí þegar hún nam 9,9%. Greining Íslandsbanka telur að verðbólgan hafi náð hæstu hæðum í júlí og spáir „talsvert hraðri“ hjöðnun á næstu misserum.

„Helsta ástæða þess að verðbólga er líkleg til að hjaðna næsta kastið er að íbúðamarkaður er farinn að kólna allhratt auk þess sem útlit er fyrir að innflutt verðbólga verði eitthvað minni, þar sem dregið hefur úr verðhækkunum hrávara og alþjóðlegur flutningskostnaður hefur farið minnkandi.“

Íslandsbanki á engu að síður von á að verðbólgan verði ekki við 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands á spátímann, þ.e. út árið 2024. Greining gerir ráð fyrir að verðbólgan verði 6,3% að meðaltali á næsta ári og 3,9% árið 2024