Bandaríska lággjaldaflugfélagið Spirit Airlines tapaði 52,4 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 7,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.

Tekjur félagsins námu 1,37 milljörðum dala, en þær hafa aukist um 35% frá árinu 2019. Á sama tímabili hafa rekstrargjöld Spirit aukist um 66% og eldsneytiskostnaður félagsins tvöfaldast í ljósi hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu.

Flugfélagið flaug 10% fleiri ferðir á milli ára. Félagið hyggst fjölga flugferðum jafnt og þétt á árinu og stefnir á að fljúga 25% fleiri flugferðir á fjórða ársfjórðungi samanborið við sama fjórðung í fyrra.

Sjá einnig: JetBlue að kaupa Spirit fyrir 520 milljarða

JetBlue komst á dögunum að samkomulagi um 3,8 milljarða dala kaup á Spirit. Sameinað félag verður fimmta stærsta flugfélag Bandaríkjanna og vonast JetBlue eftir því að sameinuð markaðshlutdeild félaganna verði 9%.

Óvíst er hvort samruninn verði heimilaður af samkeppnisyfirvöldum vestanhafs sem hafa gagnrýnt markaðsráðandi stöðu flugfélaga.