Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Viðskiptafræðideild HÍ og stjórnarmaður hjá Almenna lífeyrissjóðnum, gagnrýnir tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um bann við 40 ára verðtryggðum íbúðalánum. Már segir að sú breyting myndi hafa það í för með sér að jafnvel enn færri gætu keypt sér húsnæði.

Innviðaráðherra lét hafa eftir sér í dag að 40 ára verðtryggð lán gæfu fólki falska von um íbúðakaup og sagðist ekki útiloka að þau verði bönnuð. Þá hefur hann sagt breytingu í farvatninu á útreikningi húsnæðisliðarins í vísitölu neysluverðs.

„Mánaðarleg greiðslubyrði af 25 ára láni er rúmlega 35% hærri en á 40 ára láni. Það þýðir að enn færri geti keypt sér húsnæði en áður. Þeir sem geta það borga lítið í húsnæðinu en eiga það þó,“ segir Már.

Hann segir það einnig galið að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni og vitnar í hrunið 2008 þegar neysluvísitalan hækkaði upp úr öllu valdi samtímis 20% lækkun á húsnæðisverði. Að hans sögn, hefði vísitalan verið bundin við húsnæði og engu öðru þá hefði höfuðstóll lána fólks lækkað þegar mest á reyndi.

Sigurður Ingi telur að verðtryggingin muni hverfa þegar stöðugleiki verður kominn aftur í hagkerfið. „Reyndar skiptin staða hagkerfisins litlu máli ef að vaxtarstig hoppar og skoppar eins og jójó,“ segir Már.