Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hyggst leggja fram frumvarp sem leggur skyldu á fjölmiðlaveitur til að nýta hlutfall af áskriftartekjum sínum til miðlunar menningarverkefna sem stuðli að gerð sjónvarpsefnis á íslensku.
„Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um fyrirkomulag um skyldubundið menningarframlag fjölmiðlaveitna sem miðla efni til neytenda hér á landi með því að gera kröfu um að tiltekið hlutfall af áskriftartekjum vegna slíkrar miðlunar renni til menningarverkefna sem stuðli að gerð sjónvarpsefnis á íslensku,” segir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birtist í gærkvöldi.
„Frábið mér þessu löngun hins opinbera til að ritstýra frjálsum miðlum“
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, segir lagasetninguna fullkomlega óþarfa en hún eykur inngrip ríkisins í frjálsa fjölmiðla á landinu.
„Síminn hefur aldrei lagt meiri áherslu á innlent sjónvarpsefni heldur en síðustu misseri og við höfum þegar tilkynnt að við munum slá eigin met í framleiðslu á leiknu íslensku efni á vetri komandi. Sama stefna virðist líka vera ráðandi hjá keppinautum okkar og í því ljósi er þessi boðaða lagasetning fullkomlega óþörf,“ segir Magnús í samtali við Viðskiptablaðið.
„Stjórnvöld geta ráðskast með sinn eigin ríkismiðil að vild en ég frábið mér þessu löngun hins opinbera til að ritstýra líka frjálsum miðlum nema þá mögulega sem kvöð á þá sem eru þegar orðnir styrkþegar ríkisins vegna stuðnings við einkarekna miðla. Síminn er ekki einn þeirra fjölmiðla og ég treysti mér ágætlega til að reka innlenda dagskrárstefnu án frekari reglustýringar. Nóg er nú samt,“ bætir hann við.
Samkvæmt þingmálaskránni ætlar Lilja að leggja frumvarpið fram í janúar á næsta ári.