Bandaríska tískufyrirtækið Abercrombie & Fitch hefur ákveðið að stöðva allar eftirlaunagreiðslur til Mike Jeffries, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, í kjölfar ásakana um mansal. Ofan á hefðbundinn lífeyri hafði forstjórinn þegið bónusgreiðslur sem námu um 1 milljón dala á ári.
Í síðasta mánuði birti BBC fullyrðingar þess efnis að forstjórinn hafði misnotað unga stráka og réð þá til kynlífsathafna á meðan hann var forstjóri.
Heimildaþátturinn BBC Panorama komst að því að forstjórinn notaðist við afar skipulagt samstarf sem hjálpaði honum og breska félaga hans, Mathew Smith, að ráða unga menn á viðburði um allan heim. BBC ræddi við átta menn sem sóttu viðburðina í London, New York og Marrakesh og sögðu sumir að þeir höfðu verið misnotaðir.
Samkvæmt dómsskjölum er líklegt að rúmlega 100 karlmenn hafi verið misnotaðir kynferðislega af Jeffries á meðan hann var forstjóri og hafði hann lofað þeim vinnu sem fyrirsætur. Því er einnig fullyrt að fjármagn fyrirtækja hafi verið notað til að auðvelda mansalsstarfsemina.
Hvorki Jeffries né Smith hafa viljað tjá sig um málið en samkvæmt lögfræðingi fyrrum forstjórans munu öll þessi mál vera rædd í réttarsal.