Hæfileikaskrifstofan Creative Artists Agency (CAA) og fjárfestirinn Michael Klein hafa sameinað krafta sína og myndað nýjan fjárfestingarbanka.

CAA rekur þegar viðskiptabankann Evolution Media Capital og rennur nú bankinn saman við ráðgjafarfyrirtækið M. Klein & Co. Úr verður fjárfestingarbankinn CAA Evolution.

Fjárfestingarbankinn mun sérhæfa sig í stórum viðskiptum á fjölmiðlamarkaði, sölu á íþróttafélögum og fjármögnunarráðgjöf. CAA Evolution fer þar með í beina samkeppni við fjárfestingarbanka á borð við LionTree og Raine Group sem hafa sérhæft sig í ráðgjöf við stór viðskipti í íþrótta- og fjölmiðlaheiminum. Þeir komu til að mynda að samruna bardagaíþróttasamtakanna UFC og WWE og sölunni á enska knattspyrnuliðinu Chelsea.

Um 60 manns munu starfa hjá CAA Evolution á skrifstofum í New York, Los Angeles og London.