Seðlabanki Indlands hefur lækkað stýrivexti um hálft prósent. Á vef BBC segir að lækkunin hafi verið meiri en búist var við en þetta er þriðja lækkun seðlabankans þar í landi í röð og tengist lækkandi verðbólgu.

Stýrivextir vegna íbúða- og bílalána á Indlandi eru nú 5,5% og hafa vextir ekki verið jafn lágir í þrjú ár. Vextir voru síðast lækkaðir í apríl og þar á undan í febrúar.

Sanjay Malhotra, seðlabankastjóri Indlands, rökstuddi lækkunina með því að segja að hagvöxtur væri minni en búist var við. Seðlabankinn telur því nauðsynlegt að örva innlenda neyslu og fjárfestingu, sérstaklega vegna vaxandi óvissu í heiminum.

Hagkerfi Indlands, þriðja stærsta hagkerfi heims, óx um 6,5% í fyrra en vöxturinn hefur þó minnkað verulega frá 9,2% hámarki sem mældist milli 2023 og 2024. Á sama tíma hefur smásöluverð á Indlandi lækkað og býst seðlabankinn við enn minni verðbólgu á næstunni.