Peningastefnunefnd hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig og verða þeir því 5,5%.

Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að verðbólguhorfur hafi haldið áfram að versna frá síðasta fundi hennar. Vísað er í 9,9% mælda ársverðbólgu í júlí, og gerir nefndin nú ráð fyrir að hún nái hámarki í tæplega 11% undir lok árs.

Meiri spenna er sögð hafa myndast í þjóðarbúinu en áætlað hafi verið í maí, sem lýsi sér einna helst í hraðari bata ferðaþjónustunnar og öflugri einkaneyslu. Horfur séu nú á tæplega 6% hagvexti í ár samanborið við um 4,5% í maí.

Auk þróttmeiri þjóðarbúskapar en spáð hafði verið eru þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði og meiri alþjóðleg verðbólga tíunduð sem helstu ástæður versnandi verðbólguhorfa, auk þess sem verðbólguvæntingar hafi haldið áfram að hækka á flesta mælikvarða.

Loks er sagt líklegt að áfram muni þurfa að herða taumhald peningastefnunnar til að tryggja ásættanlega hjöðnun verðbólgu, en ákvarðanir í atvinnulífi, ríkisfjármálum og á vinnumarkaði muni skipta miklu um hversu hátt vextir þurfi að fara.