Auðlindafélagið Amaroq Minerals sem heldur um rannsókna- og vinnsluheimildir á Grænlandi, hefur birt niðurstöður rannsókna ársins 2022 á Kobberminebugt þróunarsvæðinu á Suður-Grænlandi. Niðurstöður gefa til kynna allt að 11,6% koparmagn í berginu á leitarsvæði Amaroq.

Amaroq segir að málmar hafi fundust í umtalsverðu magni í tengslum við umbreytingaberg á svæðinu. Fundurinn gefi tilefni til að ætla að fjölda svipaðra svæða sé að finna á um 40 kílómetra löngu granítsnertisvæði sem kannað verður betur árið 2023.

Sýni, tekin við Josva námuna, voru með allt að 4,2% koparmagn á 2,5 metra breiðu belti og allt að 11,6% koparmagn á ríflega 50 sentímetra breiðu belti.

„Steinefnamyndunin við Kobberminebugt tengist sömu jarðfræðilegu atburðum og mótuðu steinefnasamsetninguna á Sava leitarsvæðinu, sem einnig tilheyrir Amaroq. Þessi líkindi sýna fram á umtalsvert umfang koparbeltis sem er að minnsta kosti 120 kílómetrar að lengd.“

Amorq segir að markmið yfirborðs- og neðanjarðarkannana hjá gömlu Josva koparnámunni hafi verið að auka þekkingu og skilning á steinefnamyndun og jarðfræði svæðisins með nýtingu málma í huga.

„Félagið heldur áfram rannsóknum á svæðum sem innihalda efnahagslega mikilvæga málma og sýna þessar rannsóknir enn betur fram á jarðfræðilega möguleika Suður-Grænlands. Þessar niðurstöður benda til umtalsverðrar koparmyndunar í vesturenda steinefnabeltisins sem Amaroq er að kanna,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.

„Hátt málmhlutfall í berginu við Kobberminebugt kemur ekki á óvart í ljósi sögulegrar smánámuvinnslu á svæðinu og teymið okkar vinnur nú náið að því að bera kennsl á fleiri æðar og svæði sem hægt er að vinna. Markmiðið er að finna nægilegt vinnanlegt magn af kopar til að tryggja hagkvæmni framtíðarvinnslu á svæðinu. Við munum halda áfram rannsóknum á þessu ári og ég hlakka til að kynna fleiri jákvæðar niðurstöður um þetta á næstunni.”

Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og gullrannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi. Stærsta eign Amaroq er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu.